Vistuðu höfundarréttarvarið efni

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt níu karlmenn fyrir brot gegn höfundalögum með því að hafa á árunum 2003 og 2004 gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem þeir vistuðu á nettengdum tölvum sínum og birtu meðlimum Direct Connect jafningjanets.  

Um var að ræða forrit, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, teiknimyndir, tónlistamyndbönd og tónlist. Efnið var bæði íslenskt og erlent, samtals 130.430 eintök.

Hæstaréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms, að allt það efni sem ákært var fyrir, nyti verndar höfundalaga. Einnig var tekið undir með héraðsdómi að mennirnir hefðu stundað ólögmæta eintakagerð á höfundaréttarvörðu efni og að sá háttur sem hafður væri á dreifingu þess, að deilda því með öðrum á fjölmennu en lokuðu jafningjaneti, jafngilti opinberri birtingu og félli ekki undir undanþáguákvæði höfundalaga, sem leyfi eintakagerð til einkanota.

Einn mannanna var sakfelldur fyrir hlutdeild í brotunum með því að hafa hýst og haft umsjón með miðlæga nettengipunktinum „Ásagarði“. Með því var hann talinn hafa hvatt í verki til þess að hinir mennirnir birtu á veraldarvefnum ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni, án heimildar frá rétthöfum.

Einn mannanna var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi en ákvörðun refsingar hinna átta frestað og skal hún falla niður að liðnum 2 árum. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var kveðinn upp fyrir ári.

Tölvubúnaður mannanna var gerður upptækur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka