Tugir launakrafna í farvatninu

mbl.is

Tug­ir fyrr­ver­andi starfs­manna gömlu bank­anna, sem fóru á haus­inn, und­ir­búa nú kröf­ur á hend­ur þrota­bú­um bank­anna vegna van­gold­inna launa.

Starfs­fólkið tel­ur sig eiga inni ár­ang­ur­s­tengd­ar greiðslur og greiðslur vegna lengri upp­sagn­ar­frests en kveðið er á um í kjara­samn­ing­um banka­manna. Fram­kvæmda­stjóri stétt­ar­fé­lags starfs­manna tel­ur víst að höfða þurfi próf­mál til viður­kenn­ing­ar kröf­un­um.

Kröf­urn­ar bein­ast m.a. að þrota­bú­um Lands­bank­ans, Glitn­is, Kaupþings og Straums. Reynt er að sam­ræma vinnu við kröfu­gerðina, enda um áþekk ákvæði í ráðning­ar­samn­ing­um starfs­manna að ræða.

„Lögmaður fé­lags­ins er að út­búa kröf­ur á hend­ur þrota­bú­um gömlu bank­anna vegna launa, annarra en skil­greindra launa sam­kvæmt kjara­samn­ingi. Þarna er um að ræða ár­ang­ur­s­teng­ing­ar sem marg­ir starfs­menn gömlu bank­anna unnu eft­ir allt árið en áttu að fá upp­gjör einu sinni á ári. Þetta á t.d. við um þá sem nær ein­göngu sinntu trygg­inga­sölu á veg­um gömlu rík­is­bank­anna. Þeir áttu að fá upp­gjör vegna ár­ang­ur­s­teng­inga í októ­ber eða nóv­em­ber, um það leyti sem bank­arn­ir hrundu. Þá höfðu all­nokkr­ir starfs­menn samið um lengri upp­sagn­ar­frest en kjara­samn­ing­ur kveður á um. Það á einkum við um þá starfs­menn sem farn­ir voru að nálg­ast eft­ir­launa­ald­ur,“ seg­ir Friðbert Trausta­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka starfs­fólks fjár­mála­fyr­ir­tækja.

Slita­stjórn­ir gömlu bank­anna segja um­rædd­ar kröf­ur ekki for­gangs­kröf­ur og því sé ekki hægt að greiða kröf­urn­ar. Stétt­ar­fé­lag banka­starfs­manna er á öðru máli og seg­ir kröf­urn­ar hluta af um­sömd­um kjör­um viðkom­andi starfs­manna og þar með sé um launakröf­ur að ræða sem njóta eigi for­gangs.

Fram­kvæmda­stjóri stétt­ar­fé­lags starfs­manna seg­ir illskilj­an­legt að hægt sé að taka hluta kjara úr ráðning­ar­samn­ingi og und­an­skilja þá með þess­um hætti.

„Við erum ekki að tala um kauprétt­ar­á­kvæði eða millj­óna kröf­ur í hverju til­viki fyr­ir sig. Þetta eru kröf­ur sem snú­ast um hluta af launa­kjör­um al­mennra starfs­manna, starfs­fólks á gólf­inu en ekki æðstu stjórn­enda eða mill­i­stjórn­enda. Mál þeirra koma ekki inn á okk­ar borð,“ seg­ir Friðbert Trausta­son.

Hann seg­ir nær ör­uggt að slita­stjórn­ir muni hafna öll­um kröf­un­um en kröfufund­ir verði vænt­an­lega boðaðir í haust. Friðbert seg­ir að farið verði alla leið með málið.

„Verði þessu hafnað þá verður farið í próf­mál, það ligg­ur fyr­ir,“ seg­ir Friðbert Trausta­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka starfs­fólks fjár­mála­fyr­ir­tækja.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert