Gerði ekki kröfu um greiðslu

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar

„Til að mynda í þremur tilvikum eru til samtöl milli mín og seðlabankastjóra Englands þar sem hann segir efnislega að ef það sé svo að innistæðutryggingasjóðurinn […] ráði ekki við þetta og að menn hafi verið að braska og reyna að fá mjög háa vexti þó að þeir hefðu verið varaðir við, að þá muni hann ekki gera kröfu til þess að við borgum það," sagði Davíð Oddsson, aðspurður í viðtalsþættinum Málefninu á Skjá einum í gærkvöldi, um þau fyrri ummæli hans að til væru gögn sem sýndu fram á þetta álit Englandsbanka.

Davíð, sem segir þessi gögn til hjá ríkinu, fór um víðan völl í viðtalinu, sem var unnið í samvinnu Skjás eins og Morgunblaðsins.

Þar lýsti hann m.a. yfir þeirri skoðun sinni að samningamenn Íslands hefðu gert reginmistök með því „viðurkenna að nauðsynjalausu og án þess að nokkur bær aðili hefði um það fjallað að við værum skuldbundin til að greiða" [skuldbindingar vegna Icesave].

Aðspurður hvort hann teldi raunhæft að samningsaðilar Íslands hefðu áhuga á að sækja málið fyrir íslenskum rétti svaraði hann svo:

„Af hverju byrjum við alltaf á því að taka upp mál Bretanna... Ef við teldum að einhver banki í Bretlandi skuldaði okkur fé þá myndum við fara að réttum reglum. Ef að bankinn segði nei eða einhver sjóður þar myndi segja nei þá myndum við stefna þeim sjóðum og ég myndi treysta breskum dómstólum til að kveða upp úr með það... Íslenska ríkisstjórnin, sem á að gæta hagsmuna Íslendinga, er í fararbroddi við að týna til rök manna sem eru að reyna að fá íslenskan almenning til að bera ábyrgð á glæfralegu spili einkabanka.“

Gögnin til hjá hinu opinbera

Aðspurður um hvort hann hefði gögn um samtalið við bankastjóra Englandsbanka undir höndum benti Davíð á íslenska ríkið.

„Nei. Þessi gögn eru til hjá hinu opinbera. Þau eru til hjá rannsóknanefndinni geri ég ráð fyrir. Þau eru til í seðlabankanum og þau eru til að ég geri ráð fyrir hjá ákveðnum ráðuneytum.“

- Býrð þú yfir þessum gögnum?

„Það er allt önnur saga. Það er ekki mitt að skaffa þessi gögn.“

Vísaði ríkisábyrgð á bug 

Hann vísaði jafnframt ríkisábyrgð vegna Icesave á bug.

„Málið er þannig vaxið að þú getur ekki sagt að Landsbankinn hafi verið seldur Björgólfsfeðgum með ríkisábyrgð. Menn hafa verið að tala um að Landsbankinn hafi verið seldur ódýrt, fyrir slikk, og hafi reyndar margoft verið boðinn til sölu […] En hafi hann verið seldur fyrir slikk þá var hann ekki seldur fyrir neitt ef honum fylgdi ríkisábyrgð."

Hann kvaðst hafa lýst yfir afdráttarlausri skoðun sinni við bankastjóranna á Icesave-útrásinni til Englands.

„Ég sagði við þá. Dettur ykkur í hug að þið getið farið til Bretlands og byrjað að safna einum milljarði punda án þess að íslenskur almenningur viti um það?... Ef að Bretar og Hollendingar tryðu því að íslenskur almenningur bæri ábyrgð á þessu þá væru þeir ekki að heimta ríkisábyrgð.“

Átti að taka nokkra mánuði

Davíð vitnaði jafnframt til fundar með bankastjórum Landsbankans í febrúar, eða mars, 2008, þar sem honum var tjáð að búið yrði að flytja Icesave inn í dótturfélag á Englandi á fjórum til fimm mánuðum. Í júní hafi hins vegar orðið fátt um svör.

„Það var fullyrt við okkur, ég held að það hafi verið í febrúar eða mars 2008, að menn væru á fleygiferð við að koma þessu útibúi inn í dótturfélag í Bretlandi eins og Bretarnir líka vildu og mundu ná því á fjórum til fimm mánuðum.

Þegar við hittum síðan Landsbankastjóranna í júnímánuði tveim, þrem mánuðum seinna, við erum að tala um hina og þessa hluti ... að þá kom einn okkar með þá spurningu og þá varð hlé ... Hvernig gengur að ganga frá þessu? ... Þá kom þögn ... og þeir tilkynntu okkur að það yrði ekkert í þessu gert því að þetta væri svo erfitt fyrir Landsbankann og svo framvegis. Okkur var mjög brugðið þegar við heyrðum þetta."

Varaði Vilhjálm Egilsson við

Davíð tjáði sig einnig um samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með þeim orðum að hann hefði gert Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, og öðrum forystumönnum vinnuveitenda grein fyrir þeirri skoðun sinni að samningurinn myndi leiða til vaxtahækkunar.

„Ég sagði við þá „Þið vitið að vextir verða hækkaðir“ og Vilhjálmur Egilsson sagði: „Nei það getur ekki verið. Ég er búinn að tala við þá.“ Þeir hækkuðu vextina um sex prósent daginn eftir að mig minnir.“

Fulltrúar Íslands gerðu grundvallarmistök

Davíð telur samningafulltrúa Íslendinga hafa gert grundvallarmistök í Icesave-málinu.

Um leið og menn viðurkenna það, án þess að efni séu til þess, og án þess að nokkur dómstóll hafi ákveðið það og setjast svo að samningaborði að þá hafa þeir enga samningsstöðu. Þú byrjar á því að gefast upp og svo ferðu í viðræður. Þetta var skelfilegt.“

Davíð telur samningafulltrúa Íslands í Icesave-deilunni hafa gert grundvallarmistök.
Davíð telur samningafulltrúa Íslands í Icesave-deilunni hafa gert grundvallarmistök. mbl.is
Davíð kveðst hafa varað Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins við …
Davíð kveðst hafa varað Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins við því að vextir myndu hækka í kjölfar samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. mbl.is/Sæberg
Davíð segir bankastjóra Landsbankans, þá Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón …
Davíð segir bankastjóra Landsbankans, þá Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, hafa fullyrt í febrúar, mars, 2008 að Icesave-útibúið yrði komið inn í breskt dótturfélag innan fjögurra til fimm mánaða. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert