Margir eru nú ýmist komnir heim frá þjóðhátíð í Eyjum eða á leiðinni en hátíðin er hin stærsta frá upphafi. Talið er að um fjórtán þúsund manns hafi verið í Brekkunni í gær þegar hápunkti hátíðarinnar var náð. Bæði gestir og mótshaldarar eru ánægðir með helgina.
Talið er að um fjórtán þúsund gestir hafi verið í Brekkunni í gærkvöldi þegar Árni Johnsen hóf upp raust sína og leiddi hinn víðfræga brekkusöng en hann er af flestum talinn vera hápunktur þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum. Lauk honum á því að sunginn var íslenski þjóðsöngurinn. Fjöldi þekktra hljómsveita hafði þá stigið á svið og haldið uppi fjörinu, svo sem KK, Bubbi, Land og synir, Skítamórall og Hjálmar. Þá voru blysin ógleymanleg en þegar kveikt hafði verið á handblysum mynduðu þau logandi keðju um dalinn. Að síðustu var svo glæsileg flugeldasýning.
Aðstandendur hátíðarinnar eru afar ánægðir með helgina og segja hana hafa verið frábæra í alla staði. Afar vel hafi tekist til með allt og allir skemmt sér konunglega.
Í dag lá svo straumurinn frá Eyjum og komust færri frá en vildu. Uppbókað var bæði í Herjólf og flug og þeyttust þyrlurnar sömuleiðis á milli lands og eyja. Fjöldi manns beið við afgreiðslu Herjólfs og eins á flugstöðinni eftir flugi og eins beið góður hluti upp á von og óvön eftir lausum miðum en ávallt gerist það að einhverjir láta sig vanta og þá losnar miði.
Herjólfur fór annars þrjár ferðir í dag, Flugfélag Íslands 30 og Flugfélag Vestmannaeyja um 160. Erfitt er að komast frá eyjunni á morgun og líklegt að þeir sem ekki hafa þegar tryggt sér far komist ekki fyrr en á miðvikudag til baka.