Stefnt að fjölmennasta sjósundi Íslandssögunnar

Sá hópur sem fer reglulega í Nauthólsvík til að synda …
Sá hópur sem fer reglulega í Nauthólsvík til að synda í sjónum fer ört vaxandi. Mbl.is/Rax

Stefnt er að stærsta sjósundi Íslandssögunnar í dag þegar synt verður Skarfakletts-Viðeyjarsund. Nú þegar hafa 125 manns skráð sig. Lagt verður af stað frá Skarfagörðum. Vaxandi áhugi er á sjósundi meðal almennings.

Þann 28. ágúst 2007 var slegið met í Skarfakletts-Viðeyjarsundi þegar 55 manns syntu sjóhópsund frá Skarfakletti og út í Viðey. Nú er fyrirhugað að slá þetta met og verður sundið endurtekið í dag klukkan 17:00. Þeir sem standa fyrir sundinu eru Ermarsundgarpar í samvinnu við ÍTR, Sjósundnefnd Sundsambands Íslands og aðrir velunnarar. 

Viðeyjarsund er um 910 metrar og 1820m báðar leiðir.  Fimm til sex björgunarbátar verða á staðnum og gæta fyllsta öryggis sundmanna. Einnig munu reyndir sjósundgarpar synda með hópnum og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig. Farið verður af stað frá Skarfakletti sem er staðsettur við Skarfagarða, við bílastæði þar sem Viðeyjarferjan fer til Viðeyjar.

Tilefni sundsins er að fagna gríðarlegri aukningu í ástundun sjósunds og sjósundafrekum sumarsins: Fimm Eyjasund, Hríseyjar-,Viðeyjar- og Drangeyjarsundum. Og síðan ekki síst að kveðja Ermarsundgarpana sem senn leggja af stað í Ermarsundið, en Ermarsundsgarparnir eru hópur reyndra sjósundmanna og kvenna. Þar á meðal er Benedikt Hjartarson og boðsundsveit sem ætlar sér að synda Ermarsund, báðar leiðir, eða um 90 km sund.

Heimir Örn Sveinsson, skipuleggjari sundsins, segir skráninguna ganga vel. Nú þegar hafi 125 manns skráð sig og fyrri reynsla sýni að alltaf bætist einhverjir við á síðustu stundu. En hvað tekur svona sund langan tíma? „Af sjávarhita að dæma finnst mér líklegt að við syndum bara aðra leiðina og ættu síðustu menn að skila sér eftir svona 50 mínútur. Ef aðstæður breytast og við förum báðar leiður verður þetta um einn og hálfur tími,“ segir Heimir.

Áður voru þetta örfáir sérvitringar

Áhugi á sjósundi hefur farið mjög vaxandi hérlendis undanfarin tvö ár. „Síðasta vetur skráðum við alltaf hverjir voru að mæta í Nauthólsvík til að synda og þetta voru alltaf 50-100 manns. Til samanburðar þá voru þetta örfáir sérvitringar fyrir bara tveimur árum síðan!“ segir Heimir. Hann segist giska á að milli þrjú og fjögur hundruð manns stundi sjósund og -böð á höfuðborgarsvæðinu einu og þess fyrir utan sé fólk úti á landi sem geri þetta líka, þeir hafi hins vegar ekki tölur yfir það. „Það má því segja að það hafi orðið alger sprenging í sjósundi!“

Heimir segir að erfitt sé að meta af hverju vinsældir sjósunds hafa vaxið svo gríðarlega. „Það er þó mögulega tvennt sem þarna skiptir hvað mestu máli að mínu mati. Í fyrsta lagi sund Benedikts Hjartarsonar yfir Ermasund í fyrra, það fékk gríðarlega athygli. Í öðru lagi kreppan. Mögullega fékk fólk útrás fyrir gremju sína með því að skella sér í sjóinn! Ég hef heyrt að líkamsræktarstöðvar hafi líka orðið varar við aukna aðsókn síðasta haust, kannski er fólk farið að hugsa meira um sjálft sig nú en áður. “

Þrátt fyrir að lítið sé af vísindalegum sönnunum um ágæti sjósunds þá segir Heimir að enginn vafi leiki á heilnæmi þess. „Menn finna fyrir svo mikilli vellíðan á eftir sundið. Líkaminn er búinn að hita sig upp og menn eru sjóðheitir fram eftir kvöldi. Svo segja margir að þeir fái hreinlega aldrei kvef eftir að þeir byrjuðu að stunda þetta, þetta hafi svona góð áhrif á ónæmiskerfið,“ segir hann.

Eftir sundið  verður farið niður í Nauthólsvík þar sem fólk getur hitað sig upp í heita pottinum.  Kl sjö hefst síðan grill þar sem fólk getur pulsað sig niður og á meðan verður sjósundsumarið gert upp á viðeigandi hátt.  Að lokum fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal, sundinu til staðfestingar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert