Tófan bar hjarta og lifur úr nýdrepnu lambinu

Refur í ætisleit.
Refur í ætisleit.

„Þessi dýr eru eins og hundar, þau eru svo stór og öflug,“ segir Birgir Hauksson refaskytta í Valagerði í Skagafirði. Hann og Baldvin Sveinsson á Tjörn á Skaga unnu þrjú greni dýrbíta í Staðarfjöllum og Þverfjalli, afréttum Skagfirðinga og Húnvetninga, í sumar. Birgir áætlar að hræ af sjötíu lömbum hafi verið við grenin.

Birgir og Baldvin voru við hefðbundna grenjaleit í Staðarfjöllum. „Við sáum mikinn aðburð við fyrsta grenið,“ segir Birgir. Þeir unnu fjögur greni í Staðarfjöllum og Þverfjalli og voru greinileg merki um dýrbíta í þremur þeirra. Þeir náðu öllum dýrunum, 29 talsins.

„Maður leggur sig sérstaklega fram við að ná þeim þegar svona er.“

Þegar þeir lágu á einu greninu kom refurinn heim og þeim fannst hann ekki bera neitt. Annað kom þó í ljós þegar þeir höfðu skotið dýrið. Refurinn var með hjarta og lifur úr nýdrepnu lambi vafið inn í ullarlagða. „Þetta var svo nýtt að við lá að hjartað slægi ennþá.“

Mikill aðburður

Mikill aðburður af lambshræjum var við öll grenin. Birgir segir erfitt að áætla fjöldann sem þessi dýr hafa drepið vegna þess að hræin séu öll sundurtætt. Hann áætlar að leifarnar geti verið af um sjötíu lömbum. Refaskyttur hafa mörg dæmi um að dýrbítar hafi unnið tugi kinda áður en þau hafa verið skotin.

Fram kemur í bók Theodórs Gunnlaugssonar frá Bjarmalandi, Á refaslóðum, að meðfædd hneigð valdi því oftast að refir gerast dýrbítar, eða bitvargar eins og oft er sagt, þau komi úr grenjum bitdýrs, þótt tilviljanir geti einnig orðið til þess að þau komist á blóðbragðið. Birgir telur að refirnir sem þeir félagarnir skutu í Staðarfjöllum og Þverfjalli hafi alist upp í greni dýrbíts og telur vel geta verið að tveir refirnir hafi verið bræður og jafnvel sá þriðji sem þeir unnu á svipuðum slóðum í fyrra. Þetta hafi verið stór og öflug dýr.

Birgir vinnur fjölda grenja á hverju ári með félögum sínum og hefur oft komist í návígi við dýrbíta.

„Ég hef aldrei áður lent í því að finna þrjú dýrbítagreni í sama fjallgarðinum,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka