Öflug borhola á Hengilssvæðinu

Sterk vísbending hefur komið fram um að jarðhitasvæðið í grennd við Hengilinn sé mun stærra en áður var talið eftir að ný rannsóknarborhola við Hverahlíð reyndist afar öflug. Borholan hefur mælst gefa sem svarar til 15 til 17 megavatta í raforkuframleiðslu og gæti því ein og sér þjónað þörfum allrar byggðar vestan Snorrabrautar í Reykjavík.

Holan er nú látin blása gufu meðan ítarlegar mælingar fara fram og blasa gufurnar við sunnan þjóðvegarins yfir Hellisheiði, að því er fram kemur á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

„Við vinnslu jarðhitans á Hengilssvæðinu hafa komið fram vísbendingar, sem benda til þess að jarðhita sé að finna mun sunnar en áður var talið. Nýting svæðisins hófst á Nesjavöllum fyrir tæpum tveimur áratugum. Áratug síðar, þegar rannsóknir hófust sunnan Hengilsins þar sem Hellisheiðarvirkjun stendur, gerðu varkárar spár vísindamanna ráð fyrir að svæðið væri kaldara en norðan fjallsins. Sú hefur ekki orðið raunin. Öflugustu borholurnar á svæðinu öllu eru nú nýttar í Hellisheiðarvirkjun," að því er segir á vef OR.

Þegar boraðar voru niðurrennslisholur við Gráuhnjúka fyrir affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun kom í ljós meiri hiti en vænst var. Þar var boruð ein u.þ.b. 2 km. djúp hola og í botni hennar er hitinn um 300°C. Var þetta sterk vísbending um að mikill jarðhiti næði lengra til suðurs en vænst var og fyrra afkastamat jarðvísindamanna gerði ráð fyrir.

Holurnar eru norðan undir hnúkunum, skammt frá gömlu Þrengslavegamótunum og sjást hægra megin við veginn þegar ekið er upp Hveradalabrekkuna.

Orkuveita Reykjavíkur hefur nú fengið leyfi til að bora rannsóknaholu við Gráuhnjúka með það fyrir augum að komast að raun um hvort þar sé nýtanlegur jarðhiti. Borun rannsóknaholu stendur nú yfir á þessu svæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert