Tóbak verði tekið úr almennri sölu

Að meðaltali deyr einn Íslendingur úr reykingasjúkdómum á degi hverjum.
Að meðaltali deyr einn Íslendingur úr reykingasjúkdómum á degi hverjum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tóbaksvarnaþing Læknafélags Íslands samþykkti ályktun þar sem hvatt er til þess að Ísland verði fyrsta landið í heiminum til að taka tóbak alfarið úr almennri sölu.

Þingið hvatti til þess að reykingamenn og þeir sem ekki reykja, sýndu hver öðrum skilning, virðingu og tillitssemi. Tekið var fram að ályktanir þingsins beindust ekki gegn reykingamönnum. Þingið lagði áherslu á að best væri að hefja aldrei reykingar og ólíðandi væri að daglega ánetjuðust 2-3 ungmenni nikótíni hérlendis. Aðgerðirnar ættu ekki síst að beinast að því að minnka nýliðun reykingamanna.

Tóbaksvarnaþingið lagði fram tillögur í nokkrum liðum:
"• Að hætta sölu tóbaks í matvöruverslunum og á bensínstöðvum fyrir árslok árið
2010.
• Að hætta sölu tóbaks í söluturnum árið 2012.
• Stefna að því að Ísland verði fyrsta landið í heiminum til að taka tóbak alfarið
úr almennri sölu.
• Nýjar dreifingar og söluleiðir á tóbaki (t.d. öll sjálfsafgreiðsla) verði óheimilar.
• Tóbak verði tekið úr sölu í fríhöfnum íslenskra flugvalla.
• Aldur til að geta keypt tóbak verði hækkaður í 20 ár fyrir árslok 2010.
• Aldur til að afgreiða tóbak verði hækkaður í 20 ár fyrir árslok 2010.
• Að hnykkt verði á banni við að auglýsa eða selja varning með nafni eða merki
sem tóbak er einnig fáanlegt undir.
• Auglýsingar, t.d. á kappakstursbílum eða í íþróttaútsendingum, verði takmarkaðar með því að skylt verði að útmá auglýsingarnar í t.d.  sjónvarpsútsendingu eða tímariti.
• Þingið telur óæskilegt að leikarar reyki í íslenskum bíómyndum og á leiksviðum.
• Vernda þarf hópa sem enn eru útsettir fyrir óbeinum reykingum s.s. fangar,
fangaverðir og starfsmenn vistheimila.
• Stefnt verði að því að afnema reykingar á almannafæri.
• Að taka tóbak út úr vísitöluútreikningi.
• Stefnt skal að því að útsöluverð á tóbaki standi undir samfélagslegum kostnaði
við neyslu þess.
Nikótin er skilgreint sem lyf skv lögum, en þingið leggur til að nikótín og tóbak verði einnig skilgreind sem ávana- og fíkniefni.
Komið verði á fót embætti Tóbaksvarnarlæknis sem hafi það hlutverk að sporna við tóbaksfaraldrinum og hafi valdheimildir að fyrirmynd Sóttvarnarlæknis.
Sveitarfélög og heilbrigðisnefndir eru hvattar til að ganga með ákveðnari hætti fram í að lögum og reglum sé framfylgt. Rekstrarleyfi tóbakssöluhafa verði skilyrðislaust innkölluð við brot."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert