Fær ekki að breyta vaxtaálagi

Neytendastofa telur að eignaleigan SP–Fjármögnun hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að breyta almennum skilmálum bílasamninga í erlendri mynt á þá leið að föstu vaxtaálagi skuli framvegis vera unnt að breyta árlega.


Neytendasegir að tilefni ákvörðunarinnar hafi verið ábending frá neytanda þar sem fram kom að SP-Fjármögnun byði viðskiptavinum sínum að gera breytingar á skilmálum samningsins vegna greiðsluerfiðleika. Við þá breytingu væri lántökum gert að undirrita skilmálabreytingu þar sem fram kom að lántaki samþykki almenna skilmála. Við undirritun var lántökum ekki gerð grein fyrir því að breytingin fæli í sér breytingu á almennum skilmálum sem fylgdu með upphaflega samningnum. Við skoðun á hinum breyttu almennu skilmálum kom í ljós að SP-Fjármögnun væri nú heimilt að breyta vaxtaálagi árlega.

Á forsíðu upphaflega samningsins kom fram að vaxtaálag sé fast en vextir breytilegir, vegna breytinga á LIBOR vöxtum þar sem samningurinn væri gerður í erlendri mynt. Í almennum skilmálum upphaflega samningsins var ekki fjallað um vaxtaálag. Segir Neytendastofa, að eftir breytingu á almennum skilmálum séu þeir því ekki í samræmi við efni samningsins.

Neytendastofa taldi breytinguna of viðamikla til þess að hún yrði framkvæmd með einfaldri skilmálabreytingu. Þá taldi stofnunin sérstaklega ámælisvert að breytingin hafi ekki verið kynnt lántaka sérstaklega.

Neytendastofa ákvað að víkja breytingunum á samningsskilmálum til hliðar og er vaxtaálag því enn fast skv. upphaflegu ákvæði samningsins.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka