Samskonar sýra, sem notuð var við skemmdarverk við heimili Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, var notuð þegar unnin voru skemmdarverk á bílum við heimili Hjörleifs Kvarans, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að því er kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins.
Útvarpið segir að málningu hafi verið skvett á heimili Hjörleifs og lakkeyði sprautað á tvo bíla í ágúst. Þurfti að heilsprauta báða bílana. Samskonar lakkeyðir var notaður nokkru áður þegar málningu var skvett á hús Rannveigar og lakkeyði sprautað á bíl hennar. Fram kom í fréttablaðinu í dag að þegar Rannveig opnaði framdyr fjölskyldubílsins um morguninn skvettist sýra úr hurðarfalsinu í andlit hennar neðan við hægra augað og fær hún varanlegt ör.
Rannveig vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Morgunblaðið, aðeins að það væri í rannsókn, og sömu viðbrögð fengust hjá Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Útvarpið hafði eftir heimildarmönnum, að búið sé að greina efnið sem notað og hafi sama
efni notað á bíla Hjörleifs og Rannveigar. Um sé að ræða lakkleysir
sem hægt er að kaupa í verslunum hér á landi. Á notkun þess eru
takmarkanir samkvæmt Evrópureglum.