Telja íslensk stjórnvöld draga lappirnar

Fullyrt er í langri grein á vef breska blaðsins Financial Times um stöðu mála á Íslandi, að það sé útbreidd skoðun meðal erlendra embættismanna og banka, sem eru að reyna að endurheimta eitthvað af fjármununum sem íslensku bankarnir fengu að láni, að íslensk stjórnvöld séu að draga lappirnar og hafi hvorki vilja né getu til að takast á við þau vandamál sem verði að leysa og fari vaxandi dag frá degi. 

„Það er ljóst að hægt hefur gengið að leggja fram ákærur á hendur útrásarvíkingunum: á sama tíma og Bernard Madoff hefur verið afhjúpaður, dæmdur og fangelsaður fyrir stórfelld fjársvik hefur engin ákæra verið lögð fram af hálfu íslenska ríkissaksóknarans," segir blaðamaðurinn Robert Jackson í greininni.

Hann segir að útlendingar hafi tilhneigingu til að meðhöndla Ísland sem framlengingu af Norður-Evrópu; þeir séu eins og allir aðrir en búi aðeins norðar. En svo sé ekki og menning og þjóðarímynd Íslendinga sé einstök. „Þeir eru ekki bandarískir, evrópskir, skandínavískir eða annað þessháttar - þeir eru íslenskir," segir Jackson.

Hann lýkur greininni með þeim orðum, að Íslendingar séu nú á krossgötum. Önnur leiðin sé í átt til Evrópu, taka upp evru og komast þannig í efnahagslegt skjól hjá Evrópusambandinu.

Hin leiðin sé leið sem kenna megi við Eina Þjóð: einangruð þjóð, veik og berskjölduð en með bjargfasta trú á eigin hæfileika, staðfestu og úrræði. Hafni Íslendingar Evrópuleiðinni sé raunveruleg hætta á að Ísland verði eins og Bjartur í Sumarhúsum: einmana vera sem staulast áfram, ringlaður og veðurbarinn en samt þrjóskulega inn í heimskautaauðnina. „Í hugum margra Íslendinga er það ákjósanlegur kostur."

Greinin í Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert