SkjárEinn verður áskriftarstöð

Frá miðjum nóvember næstkomandi verður sjónvarpsstöðin SkjárEinn áskriftarstöð. SkjárEinn verður þá sendur út í læstri dagskrá. Áskrift mun kosta 2.200 kr. á mánuði en ekki verður byrjað að innheimta áskriftargjöld fyrr en 1. desember. Fréttatími Skjásins og Morgunblaðsins verður hins vegar í opinni dagskrá.

Fram kemur í tilkynningu að allir sem skrái sig fyrir áskrift muni hafa aðgang að stöðinni án endurgjalds frá miðjum nóvember til 1. desember. Hægt verði að kaupa áskrift bæði í gegnum Sjónvarp Símans og Digital Ísland hjá Vodafone þannig að ekki verði þörf á að skipta út þeim myndlyklum sem fyrir eru á heimilinu.

Þá segir að SkjárEinn, eins og fjölmörg önnur íslensk fyrirtæki, hafi lent í miklum erfiðleikum þegar efnahagskreppan skall á – og á tímabili hafi litið út fyrir að stöðin myndi hætta útsendingum sínum. Stuðningur þjóðarinnar, samstaða starfsmanna og endursamningar við erlenda birgja Skjásins hafi hins vegar orðið til þess að sú hafi ekki orðið raunin.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjásins, segir í tilkynningu að því miður hafi þessi úrræði ekki dugað til þar sem auglýsingamarkaðurinn, eina tekjulind SkjásEins, hafi dregist mjög harkalega saman. „Við viljum bjóða SkjáEinn ókeypis en okkur er það einfaldlega ekki fært. Við skuldum áhorfendum, starfsmönnum og samstarfsaðilum okkar að láta reyna á alla kosti sem geta fleytt okkur áfram. Við viljum ekki gefast upp og því tökum við þetta skref,“  segir Sigríður í tilkynningunni.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert