Gleymdu 200 milljörðum

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ómar Óskarsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði þingmenn vinstri grænna í þingræðu fyrir stundu um að hafa gleymt 200 milljarða króna vaxtagreiðslum vegna afborganna af Icesave-skuldahalanum í umræðum sínum um kosti samningsins. Birgir Ármannsson sagði fyrirvara Icesave nú útvatnaða.

Áður en Guðlaugur steig í pontu sakaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sjálfstæðismenn um að halda uppi efnahagslegum heimsendaspám. Fyrirvararnir, sem Pétur H. Blöndal þingmaður hefði kallað „tæra snilld“, héldu.

Guðlaugur Þór gerði hins vegar ummæli Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, um að greiðsluþakið myndi halda eftir nýja Icesave-samkomulagið að umtalsefni. Þau ummæli sýndu að augljóst væri að Guðfríður Lilja þyrfti að kynna sér málið betur.

Með 200 milljarða áætluðum vaxtagreiðslum af Icesave hlyti stuðningur VG við samninginn að vera í uppnámi. Hér væri á ferð upphæð sem jafngilti fjórum nýjum háskólasjúkrahúsum.

Birgir Ármannsson var harðorður um nýja samkomulagið og sagði að í því hefðu fyrirvararnir verið „tættir niður“ og „þynntir út“, líkt og Ragnar H. Hall hefði bent á.

Hinu bæri að halda til haga að Ragnar teldi nýja samkomulagið „snöggtum skárra“ en það leit út í júní.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi einnig um Icesave-samkomulagið og sagði ekki hægt að treysta á að eignir Landsbankans gangi upp í 90% af Icesave-kröfunum.

Ísland þyrfti að greiða vexti af Icesave-skuldinni þótt enginn hagvöxtur væri í landinu á greiðslutímabilinu, eða árlega 15 til 50 milljarða króna, samanborið við 10 milljarða árlegt framlag ríkisins til Háskóla Íslands. 

Hætt sé við því að enginn hagvöxtur verði á greiðslutímabilinu og þá kunni sú staða að koma upp að margir telji nauðsynlegt að virkja og ganga á auðlindir landsins eins og hægt er. Á börnum, sem nú séu 1 til 2 ára, kunni að hvíla ævarandi skuld ef enginn hagvöxtur verður á tímabilinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert