Mjög hitnaði í þingsal Alþingis þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir nýju Icesave-frumvarpi. Steingrímur gagnrýndi m.a. fyrri stjórnvöld, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið harðlega en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að sér væri fullkomlega misboðið og ræða Steingríms væri „ein samfelld súpa af rangtúlkunum á sögu málsins“.
„Það færi betur á því ef hæstvirtur fjármálaráðherra segði við okkur að við eigum engan annan valkost,“ sagði Bjarni. „Að við þurfum að sætta okkur við fjárkúgun og misbeitingu,“ sagði Bjarni, sem rifjaði upp að fjármálaráðherra hafi áður kallað svonefnd sameiginleg viðmið í samkomulaginu ógildanlegan nauðasamning. Nú haldi hann því fram að fyrri stjórnvöld hafi skuldbundið Íslendinga til að gera það sem honum var falið að ganga frá.
„Ef það er einhver einn flokkur sem á þetta Icesave-klúður skuldlaust í húð og hár þá er það Sjálfstæðisflokkurinn,“ svaraði Steingrímur í svari við andsvari Bjarna og minnti á að dómstólaleiðin gæti leitt til verri niðurstöðu í málinu.
Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði ræðu fjármálaráðherra fela í sér fullkomna uppgjöf. Lítilmótlegt væri af Steingrími að þvo hendur sínar af ábyrgð af málinu. Spurði hann m.a. Steingrím hver herkostnaðurinn af dómstólaleiðinni í Icesave-málinu yrði.
Hefði farið dómstólaleiðina
Steingrímur svaraði því til að hann hefði kosið dómstólaleiðina ef hún væri í boði og vitnaði því næst til samkomulagsins og þeirra úrræða sem það fæli í sér.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokkurinn, sakaði Steingrím um að reyna að slá „pólitískar keilur“ með því að minnast ekki á Brussel-viðmiðin.
Hann gekk lengra í öðru andsvari sínu og sakaði ráðherrann um ósannsögli og um uppgjöf gagnvart Hollendingum og Bretum. Tök Steingríms í Icesave-málinu sýndu að hann vissi ekki hvað hann var að gera.
Ótrúleg framganga Fjármálaeftirlitsins
Steingrímur sagði m.a. að í framsöguræðu sinni, að hann hefði fengið það hlutskipti að reyna að greiða úr þeirri herfilegu stöðu sem Icesave-málið var komið í. Sagði Steingrímur m.a. að Seðlabankinn hefði getað lagt mikið að mörkum hefði hann hækkað bindiskyldu íslenskra banka í stað þess að lækka hana þegar ofvöxturinn íslenska bankakerfisins keyrði úr hófi fram.
Þá þyrfti Fjármálaeftirlitið að líta í eigin barm sem stofnun. „Samskipti þess, við hollensk yfirvöld, svo seint sem í september, eru með endemum, í ljósi þess sem síðar hefur komið fram," sagði Steingrímur og bætti við að íslenskum stjórnvöldum og íslenskum bankamönnum hefði þegar þarna var komið hafi verið löngu ljóst í hvað stefndi.