Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Norðurlönd harðlega á þingi Norðurlandaráðs, sem hófst í Stokkhólmi í dag. Sagði hann að Íslendingar hefðu nánast staðið einir í hvirfilbyl fjármálakreppunnar og væru afar vonsviknir yfir að Norðurlandaríkin hefðu ekki stutt málstað Íslands í Icesave-málinu.
Bjarni sagði, að Íslendingar hefðu alltaf litið svo á að Norðurlöndin væru ein fjölskylda sem hefði saman skapað norræn gildi sem Norðurlandabúar væru stoltir af og þolað saman súrt og sætt.
„Því miður upplifðu Íslendingar sl. haust hvernig það er að standa nánast einir í hvirfilbylnum. Aldrei áður í sögu okkar höfum við þurft eins mikið á norrænum stuðningi að halda en því miður fundum við ekki þann stuðning frá Norðurlöndunum, ef undan eru skildir bræður okkar Færeyingar," sagði Bjarni.
Hann sagði að Íslendingar væru að sjálfsögðu þakklátir fyrir lánsloforð frá Norðurlöndunum en teldu jafnframt afar sérkennilegt, að þau loforð hefðu verið háð því að samkomulag næðist í Icesave-deilunni. Sú deila væri á milli Íslands, Englands og Hollands og kæmi því hvorki Norðurlöndunum né Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við.
„Bretland og Holland hafa því miður misnotað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og komið í veg fyrir að aðstoð sjóðsins við Ísland næði fram að ganga og endurskoðun efnahagsáætlunarinnar til að þvinga Íslendinga til að gefa eftir í Icesave-málinu og afsala sér lagalegum rétti sínum," sagði Bjarni.
Hann sagði að í þessu máli hefðu Norðurlöndin ekki komið Íslandi til varnar heldur þvert á móti stutt Breta og Hollendinga. Icesave-deilan snérist fyrst og fremst um túlkun á reglum Evrópusambandsins og hvernig fara eigi með deilur af þessu tagi.
„Í þessu máli var afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vinir og bandamenn okkar styddu okkur innan Evrópusambandsins og útskýrðu sjónarmið en það gerðist ekki. Þess vegna vil ég nota tækifærið og koma því á framfæri hve sorgmæddir og vonsviknir við Íslendingar erum vegna þessarar framkomu Norðurlandanna og krefjast jafnframt svars við því hver hinn lögfræðilegi grundvöllur var fyrir þessum alþjóðlegu skuldbindingum og hvers vegna menn neituðu að útkljá málið fyrir dómstólum," sagði Bjarni.
Bjarni flutti ræðu sína í fyrirspurnartíma til ráðherra á þinginu. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, svaraði honum og sagði, að það væri venjan, þegar lönd lentu í miklum efnahagserfiðleikum, að reynt væri að leysa þá með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lán Norðurlandanna til Íslands tengdust aðstoð sjóðsins.
Reinfeldt sagðist ekki vilja fara nánar út í einstaka þætti deilumála en sagðist vilja minna á, að menn litu slíka hluti oft mismunandi augum.