Fréttaskýring: Ekki alls staðar tekjusamdráttur

Kreppan kemur mjög misjafnlega við sveitarfélögin í landinu. Í sumum sveitarfélögum sem byggjast á sjávarútvegi eru útsvarstekjur að aukast á milli ára, en annars staðar minnka þær mikið. Í Borgarbyggð t.d. er tekjusamdrátturinn áætlaður um 100 milljónir króna. Eitt af því sem deyfir áhrif kreppunnar á sveitarfélögin er að þau fá á þessu ári tæplega þrjá milljarða í tekjur vegna þess að fólk er að taka út séreignasparnaðinn.

Útsvarstekjur hafa aukist milli ára í Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ, Stykkishólmi, Grindavík, Bolungarvík, Norðurþingi og Dalvíkurbyggð svo dæmi sé tekið. Útsvarstekjur hafa hins vegar minnkað milli ára í Borgarbyggð, á Fljótsdalshéraði og í flestum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan fyrir tekjutapinu er að tekjur fólks í þessum sveitarfélögum hafa lækkað og atvinnuleysi er umtalsvert.

Tekjur sjómanna aukast

Tekjur sjávarútvegsins eru beintengdar gengi krónunnar. Gengið féll mikið á síðasta ári og við það jukust tekjur útvegsins og einnig sjómanna. Þetta hefur síðan áhrif á afkomu sveitarfélaganna. Útsvarstekjur Stykkishólmsbæjar eru t.d. 14% meiri í ár en í fyrra. Að sögn Erlu Friðriksdóttur bæjarstjóra er þetta í samræmi við fjárhagsáætlun. Afkoma Snæfellsbæjar er betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Sömu sögu er að segja frá Vestmannaeyjum. Útsvarstekjur aukast um 10% milli ára. Á móti kemur lækkun frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Kristinn Jónsson bæjarstjóri segir að það megi m.a. þakka góðri afkomu í sjávarútvegi og einnig útgreiðslu séreignasparnaðar.

Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir að rekstur sveitarfélagsins sé góður, en fjármagnskostnaður sé þungbær. Atvinnuástandið sé sem betur fer gott og það skipti miklu máli fyrir tekjur sveitarfélagsins. Ragnar segir að stjórnendur Vesturbyggðar hafi 40 ára reynslu af því að fást við kreppu þannig að menn láti það sem nú gangi á ekki trufla sig.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri í Tálknafirði, sagði að útsvarstekjur sveitarfélagsins stæðu í stað. Hún sagði vissulega rétt að tekjur sjómanna væru hærri, en eftir sem áður væri tap á rekstrinum. Það skipti verulegu máli að tekjur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hefðu dregist saman milli ára. Eyrún sagði að þótt nú gengi vel í sjávarútvegi mætti ekki gleyma því að árin 2004-2008 hefðu verið erfið fyrir sjávarútveginn vegna þess hvað gengi krónunnar var óhagstætt.

Tekjur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu dragast verulega saman milli ára, mest í Reykjavík, Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Sum sveitarfélög á landsbyggðinni hafa líka mátt þola tekjusamdrátt. Líklega hafa tekjur hvergi lækkað eins mikið og í Borgarbyggð, en þar lækka tekjurnar um 100 milljónir milli ára. Ástæðan er sú að þar hefur byggingaiðnaður verið mjög stór hluti af atvinnulífinu.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert