Fjölmiðlalög biðu í sólarhring

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum. mbl.is/Ómar

Forseti Íslands tók sér ekki nema tæpan sólarhrings umhugsunartíma þegar hann hafnaði staðfestingu fjölmiðlalaganna árið 2004.

Ólafur Ragnar Grímsson fékk fjölmiðlalögin til staðfestingar síðdegis 1. júní en kynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi daginn eftir.

Á fundinum fór Ólafur Ragnar yfir mikilvægi fjölmiðla og sagði svo: „Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.

Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Tæplega 32 þúsund einstaklingar höfðu skrifað undir áskorun til forsetans um að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin, og verður að teljast líklegt að til þess hafi hann meðal annars verið að vísa þegar hann talaði um gjá milli þings og þjóðar. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 62 þúsund nöfn verið sett á undirskrifalista InDefence sem á laugardag var afhentur forsetanum.

Fjölmiðlalögin fóru aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu þótt Ólafur Ragnar hafi ekki staðfest þau enda setti Alþingi síðar lög sem felldi þau úr gildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert