Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sakar Breta og Hollendinga um að kúga Íslendinga fjárhagslega. Þetta kemur fram í viðtali bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN við forsetann í gær. Er fyrirsögn viðtalsins Forseti Íslands: Það er verið að kúga okkur.
Ólafur Ragnar segir að ríkin tvö hafi nýtt sér áhrif sín hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til þess að koma í veg fyrir að sjóðurinn myndi lána Íslandi þá 2 milljarða Bandaríkjadala sem þyrfti til þess að byggja upp landið á ný.
„Það er verið að kúga okkur. Bretar og Hollendingar eru að nota áhrif sín hjá AGS til þess að koma í veg fyrir að áætlun AGS haldi áfram," segir í viðtali Richard Quest, fréttamanns CNN við forsetann.
Ólafur Ragnar segir Ísland lítið ríki sem er reiðubúið til að bera sinn hluta af byrðunum en Íslendingar vilja ekki vera settir út í horn á þann hátt að efnahagur landsins næstu tíu árin er í húfi.
Á CNN er farið yfir hvað fellst í Icesave-samkomulaginu og að Ólafur Ragnar hafi neitað að staðfesta lögin sem samþykkt voru 30. desember. Hann tekur í viðtalinu við CNN dæmi af því hve miklar byrðarnar yrðu á hvern Breta ef miðað væri við höfðatölu. Þetta jafnist á við að breskir skattgreiðendur þyrftu að greiða 700 milljarða punda á næstu árum og áratugum.Vísað er til orða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á vef CNN þar sem hún ýjar að því að ákvörðun Ólafs Ragnars um að skrifa ekki undir geti tafið efnahagsbatann á Íslandi og að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu.
Gert í þágu lýðræðisins
Ólafur Ragnar segir í viðtalinu að ákvörðun hans sé í þágu lýðræðis. Hann hafi farið að vilja þjóðarinnar, að fjórðungur hennar hafi skrifað undir áskorun til hans um að skrifa ekki undir lög sem leggi rúmar 2,2 milljónir króna á hvern íbúa.
„Við höfum gleymt að það eru tveir máttarstólpar í vestrænni arfleið sem við erum stolt af. Annar er þróun frjáls markaðar og hinn er lýðræðisþróunin," segir Ólafur Ragnar í viðtali við CNN.
„Og það sem ég gerði þegar ég varð að velja á milli fjárhagslegra hagsmuna annars vegar og lýðræðis hins vegar þá valdi ég lýðræðið."
Fjármálaleg hryðjuverkastarfsemi af hálfu Breta
Ólafur Ragnar fer yfir í viðtalinu þegar bresk stjórnvöld settu Ísland á lista yfir þá sem grunaðir eru um hryðjuverk. „Þeir settu land mitt á opinberan vef bresku ríkisstjórnarinnar við hlið al-Qaeda og talibana."
Eins þegar Gordon Brown og Alistair Darling, mættu í sjónvarp í október 2008, þar á meðal CNN, og sögðu að Ísland væri gjaldþrota.
Sem var fullkomin þvæla og ekkert annað er fjármálaleg hryðjuverkastarfsemi af þeirra hálfu, að sögn forseta Íslands. „Þetta hafði þau áhrif að fyrirtæki alls staðar í heiminum sem áttu í samskiptum við Ísland, lokuðu fyrir þau."
Þetta segir Ólafur Ragnar að hafi haft verulega slæm áhrif á efnahag Íslands og hann því orðið verri en hann hefði þurft að verða.