Rut Magnússon söngkona lést í Reykjavík 7. febrúar sl., 74 ára að aldri. Rut Magnússon (f. Ruth Little) fæddist í Carlisle í Englandi 31. júlí 1935 og ólst þar upp. Hún fluttist til London árið 1954 og hóf nám í læknisfræði en sótti söngtíma jafnframt.
Ári seinna náði söngurinn yfirhöndinni og hún brautskráðist með kennara- og einsöngvarapróf frá Guildhall School of Music and Drama árið 1959. Eftir glæstan söngferil í Bretlandi fluttist hún til Íslands árið 1966 og hóf þátttöku í tónlistarlífinu hér.
Hún hélt fyrstu tónleika sína á Íslandi á vegum Tónlistarfélagsins árið 1963, tók þátt í frumflutningi margra af stórverkum tónbókmenntanna hér á landi. Hún frumflutti einnig fjölda nýrra verka eftir íslensk tónskáld. Á óperusviðinu birtist hún í hlutverki Carmen eftir Bizet, í Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og í Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson.
Frá upphafi sinnti Rut söngkennslu m.a. í Söngskólanum og lengst af í Tónlistarskólanum í Reykjavík eða þar til hún lét af störfum árið 2003. Rut sinnti mörgum öðrum störfum á tónlistarsviðinu. Hún tók þátt í stofnun Samtaka um byggingu tónlistarhúss 1983 og stýrði starfseminni til 1993.
Rut var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1992.
Eftirlifandi eiginmaður Rutar er Jósef Magnússon flautuleikari og eignuðust þau tvo syni.