Fyrsta háskastigi lýst yfir

Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull rax

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í morgun vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli, en frá því um áramót hefur virkni færst í aukana. Í lok febrúar jókst svo virknin verulega og síðustu sólarhringana hefur hún verið viðvarandi. Nokkrir jarðskjálftanna hafa verið að stærðinni 2 – 3. Flestir eru á 7-10 kílómetra dýpi.

Almannavarnir eru með viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Vegna aukinnar virkni í jöklinum hefur verið ákveðið að virkja áætlunina á fyrsta háskastigi, óvissustigi, sem einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið og samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið. Svona óróahrina leiðir ekki endilega til eldgoss.

Síðasta gos í Eyjafjallajökli var 1821 - 1823 og þar á undan árið 1612. Um landnám Íslands er einnig talið að gosið hafi í jöklinum. Gos í Eyjafjallajökli hafa almennt ekki verið hamfaragos, þau byrja rólega en færast svo í aukana. Árin 1994 og 1999 var mikil jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli og talið að kvikuinnskot hafi verið djúpt í fjallinu, sem ekki náði að komast upp á yfirborðið.

Vísindamannaráð almannavarna kemur reglulega saman og fer yfir þróun ýmissa mála. Ráðið samanstendur af vísindamönnum og viðbragðsaðilum sem málið varða hverju sinni. Síðasti fundur á þessum vettvangi var 2. febrúar en þá var farið yfir þróunina í Eyjafjallajökli og ákveðið að fylgjast sérstaklega með breytingum á svæðinu. Síðan þá hafa mælingar sýnt landris og þenslu á svæðinu.

Jarðskjálftahrinan sem hófst í Eyjafjallajökli á miðvikudag heldur áfram með svipuðu sniði og verið hefur. Skjálftarnir eru enn litlir, flestir um og undir einum að stærð og á sama dýpi og verið hefur, 7-10 kílómetrum. Nokkrir skjálftanna hafa náð stærðinni tveimur og gott betur. Stærsti skjálftinn (hingað til) varð í morgun, 5. mars, kl. 06:13, og var hann um þrjú stig.

Hátt á þriðja þúsund skjálftar hafa mælst frá því á miðvikudag og hafa stærstu skjálftarnir fundist í Fljótshlíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert