Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, segir það ekki hafa verið sérstaklega rætt undanfarna daga að hann taki sæti aftur í ríkisstjórn Íslands. Hins vegar hafi t.d. þingmenn VG nefnt það reglulega frá því hann gekk úr stjórninni, og er hann tilbúinn til að taka sæti aftur „á þeim forsendum sem allir þekkja.“
Ekki rætt þetta við ríkisstjórnina
„Þetta er nú nánast bara eitthvað sem ég hef lesið um í blöðum,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, spurður út í fréttir undanfarna daga um að hann muni mögulega taka aftur sæti í ríkisstjórninni.
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er sagt að ríkisstjórnin standi veikum fótum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave um liðna helgi, og að helsta leiðin til að styrkja stjórnina sé að fá Ögmund aftur um borð.
Ögmundur segist ekki hafa rætt þetta mál við nokkurn úr ríkisstjórninni undanfarna daga. Hins vegar hafi þetta verið reglulega rætt, t.d. innan VG, frá því hann gekk úr ríkisstjórninni sl. haust.
Kæmi til greina á réttum forsendum
„Það var vitað mál að ég gekk úr ríkisstjórninni nánast tilneyddur. Ég vildi aldrei tengja líf ríkisstjórnarinnar við Icesave, en þegar þetta tvennt var tengt saman en ég ósammála því sem var á borðum málinu, sá ég ekki annan kost en að segja af mér embætti.
Það gerði ég þar sem ég taldi mig ekki eiga annan kost í stöðunni, en ekki vegna þess að ég vildi ekki sitja í þessari ríkisstjórn. Og það er ennþá óbreytt,“ segir Ögmundur.
Aðspurður segir Ögmundur að væri honum boðið sæti í ríkisstjórninni, kæmi það vel til greina að þiggja slíkt boð - eins og það hafi raunar alltaf gert - en „á þeim forsendum sem allir þekkja.“
Einkennist af brúarsmíði, ekki klofningi
Aðspurður út í fréttir af meintum klofningi innan VG, þar sem hluti þingmanna styðji formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, í þeirri afstöðu sem hann hefur tekið í Icesave-málinu, á meðan aðrir þingmenn fylgi Ögmundi, segir hann: „Ég myndi þvert á móti segja, að starfið innan Vinstri grænna einkennist frekar af brúarsmíði og sáttarvilja, heldur en því að menn gangi í gangstæðar áttir.“
Ríkisstjórnarsamstarfið við Samfylkinguna sé einnig ágætt.
Ögmundur segir að alls ekki eigi að tengja útkomu þjóðaratkvæðagreiðslunnar við líf ríkisstjórnarinnar. „Ég tók að sjálfsögðu þátt í kosningunni og greiddi atkvæði gegn lögunum. En ég er hins vegar fylgjandi ríkisstjórnarsamstarfinu.“
Hins vegar hafi hann áhyggjur af afleiðingum þess, að stjórnarandstaðan freistist til að tengja afgreiðslu Icesave lífi ríkisstjórnarinnar. „Það er mjög miður, því það veikir aðkomu okkar Íslendinga að málinu, eins og ég hef alltaf sagt. Þannig að mér finnst stjórnarandstaðan ekki axla þá skyldu og ábyrgð sem henni ber í þessu máli,“ segir Ögmundur.