Umhverfisráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis vegna skotvallar á Álfsnesi á Kjalarnesi. Kæru vegna starfsleyfis Skotfélags Reykjavíkur á sömu slóðum var vísað frá.
Ráðuneytinu bárust tvær stjórnsýslukærur 12. júní 2009, annars vegar vegna ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis fyrir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis dags. 4. maí 2009 og hins vegar vegna ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis fyrir Skotfélag Reykjavíkur dags. 8. mars 2008.
Kærendur í báðum málunum voru íbúasamtök Kjalarness og eigendur og ábúendur á jörðinni Skriðu.
Af úrskurðinum að ráða varð misbrestur af hálfu Reykjavíkurborgar á gerð deiliskipulags vegna Álfsness og skotvalla þar. Því er starfsleyfið fellt úr gildi.
Úrskurður um starfsleyfi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis
Úrskurður um starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur