Eldgosið er lítið

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir enga leið að spá fyrir um hvað gosið verði langt. Því geti lokið á morgun, en það geti líka staðið í 1-2 ár. Hann segir gosið lítið.

Þetta kom fram á blaðamannafundi á Hvolsvelli. Magnús sagði að gosið hefði komið upp á besta mögulega stað. Hann sagði að gosið væri lítið, minna en Heklugos og minna en upphaf Kröfluelda. Hann sagði að ekki væri útilokað að gossprungan gæti lengst til vestur sem myndi þýða að hún næði undir jökul.

Fram kom á fundinum að ákveðið hefði verið að loka vegum og rýma hús vegna þess að menn viðbrögð Almannavarna miðuðu við verstu mögulegu útkomu. Hafa þyrfti í huga að gosið hefði komið upp um nótt þegar engin leið var að fá yfirsýn yfir málið og ennfremur að gosið væri nálægt jöklum. Það væri því betra að hafa varann á sér meðan menn væru að átta sig á stöðunni.

Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur sagði að það væri óvenjulegt við aðdraganda að þessu gosi að tiltölulega lítill órói hefði komið fram á skjálftamælum. Þetta væri miklu minna heldur en jarðvísindamenn hefðu séð í fyrri gosum. Í reynd hefðu menn ekki áttað sig á að það væri komið gos fyrr en að bjarma brá við himinn.

Ekki hefur gosið á Fimmvörðuhálsi í mörg þúsund ár, að því er Magnús Tumi sagði. Hvasst er á svæðinu og erfitt að sjá hvernig gosið er að þróast.

Blaðamannafundur hjá almannavörnum á Hvolsvelli
Blaðamannafundur hjá almannavörnum á Hvolsvelli mbl.is/Ómar Óskarsson
Gossprungan er um kílómetri að lengd.
Gossprungan er um kílómetri að lengd. RAX / Ragnar Axelsson
Á blaðamannafundinum voru Steinunn Jakobsdóttir, Víðir Reynisson, Kjartan Þorkelsson og …
Á blaðamannafundinum voru Steinunn Jakobsdóttir, Víðir Reynisson, Kjartan Þorkelsson og Magnús Tumi Guðmundsson. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert