Eldurinn sést úr Fljótshlíð

Gosbjarminn sést vel frá Kirkjulækjarkoti. Myndin var tekin á tíma …
Gosbjarminn sést vel frá Kirkjulækjarkoti. Myndin var tekin á tíma sem ýkir aðeins bjarmann. mynd/Katrín Möller Eiríksdóttir

„Ég sé eldrönd og mér sýnist hún vera austanmegin og að norðanverðu í jöklinum. Mér sýnist að mökkurinn komi hingað til okkar. Vindurinn blæs hingað. Fnykurinn er sterkur,“ sagði Þröstur Sigfússon í Kirkjulækjarkoti í Fljótslhlíð. Hann stóð úti á hlaði og horfði á eldgosið í Eyjafjallajökli.

Þröstur sagði að umferð bíla væri úr Fljótshlíðinni og vestur úr í átt að Hvolsvelli.

Guðrún Markúsdóttir í Langagerði í Hvolhreppi var komin inn í Fljótshlíð og kvaðst sjá bjarma yfir jöklinum.

Anna Runólfsdóttir í Fljótsdal, innsta bæ í Fljótshlíð, kvaðst hafa séð bjarma af jarðeldunum ofarlega og austarlega í Eyjafjallajökli, nálægt Fimmvörðuhálsi. 

Þorkell Daníel Eiríksson, maður Önnu í Fljótsdal, sagði að þau væru komin að Múlakoti en þau eru á leið á Hvolsvöll til að tilkynna sig samkvæmt rýmingaráætlun. 

Þorkell sagði að þrátt fyrir rýmingaráætlunina hafi þau mætt nokkrum bílum á leið inn eftir Fljótshlíðinni. Þar væru líklega menn sem ætluðu að taka ljósmyndir. 

Um 500-600 manns búa á rýmingarsvæðinu undir Eyjafjallajökli í Rangárþingi eystra. Nýrri rýmingaráætlun var útbúin síðustu vikur og hefur verið íbúum á íbúafundum síðustu daga.

Þröstur Sigfússon í Kirkjulækjarkoti sagði að bæir þar stæðu svo hátt í Fljótshlíðinni að ekki væri gert ráð fyrir að þeir yrðu rýmdir vegna eldgossins. Hann sagði að ábúendur þar og í kring hafi byrjað á að fylla öll ílát af vatnii til að eiga ef til þess kæmi að öskufall spillti neysluvatni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka