„Þetta er ekki stórgos, en það hefur heldur verið að færast í aukna núna á fyrstu sex klukkustundum þess,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Hann kom um klukkan sex úr flugi jarðvísindamanna yfir gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsu með flugvél Gæslunnar.
Í fyrra flugi Gæslunnar í nótt sáust a.m.k. 15-16 kvikustrókar og þeir hæstu náðu hundrað metra hæð. Gosið hófst rétt fyrir miðnætti.
Gossprungan liggur milli Eyjafjalla- og Mýrdalsjökuls og er sprungan um það bil einn kílómetri á lengd. Svo einhver mælikvarði sé settur á það, þá var gossprungan í síðasta Heklugosi fjórir kílómetrar og í Vestmannaeyjagosinu 1973 var sprungan tveir kílómetrar.
Gosið á Fimmvörðuhálsi er hraungos en er ekki vitað hve mikið hraunrennslið er. Vænst er, að það skýrst nú í birtingu. Hugsanlega gæti hraun runnið niður Hvannárgil í Húsadal í Þórsmörk. Magnús Tumi segir á þessu stigi alltof snemmt að segja nokkuð til um hvort hraunrennsli verði til þess að spilla leiðinni yfir Fimmvörðuháls sem er vinsæl og þúsundir fólks hafa gengið á ári hverju.
Síðasta eldgos í Eyjafjallajökli varð árið 1821. Árþúsundir eru síðan eldsumbrot urðu á Fimmvörðuhálsi, að sögn Magnúsar Tuma sem var á leiðinni til fundar með heimamönnum í Rangárvallasýslu sem halda átti nú í morgunsárið.
Almannavarnanefnd ríkislögreglustjóra sagði eftir síðara flug jarðvísindamanna yfir gosstöðvarnar í morgun, að gossprungan á Fimmvörðuhálsi væri 0,5-1 km á lengd. Á tímabilinu frá kl. 4 til 7 var kvikustrókavirkni mjög jöfn, 12 kvikustrókar eru á sprungunni.
Sprungan
hefur stefnu frá suðvestri til norðausturs, hraun rennur frá henni til stutta
leið til austurs en meginhraunstraumurinn rennur til vesturs. Ekki var hægt að
meta nákvæmlega umfang vestara hraunstraumsins sökum aðstæðna við gosstöðvarnar.
Lítilsháttar gosmökkur er frá gosinu en hann nær ekki meira en um 1 km í loft
upp. Gosmökkinn leggur beint til vesturs. Áhrif af gosinu eru mjög staðbundin
enn sem komið er.