Urðu frá að hverfa vegna veðurs

Jarðvísindamenn urðu frá að hverfa á Fimmvörðuhálsi vegna vonskuveðurs í …
Jarðvísindamenn urðu frá að hverfa á Fimmvörðuhálsi vegna vonskuveðurs í dag. mbl.is/Halldór Kolbeins

Hópur jarðvísindamanna, ásamt Flugbjörgunarsveitinni á Hellu, varð að snúa við á leið sinni að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi í dag. Snældubrjálað veður var á leiðinni og ekkert skyggni, að sögn Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Í ferðinni voru um tíu jarðvísindamenn og björgunarsveitarmenn á snjóbílum

„Þegar farið er að skafa af hjarninu er tilgangslaust að djöflast áfram í þessu, sáum orðið ekkert fram fyrir okkur," sagði Ármann við mbl.is en þar sem spáð er mjög vondu veðri til morguns á gossvæðinu verður möguleiki á annarri ferð ekki skoðaður fyrr en á morgun.

Að sögn Ármanns náðist þó að taka einhver sýni á leiðinni þar sem öskufall var austan við Fimmvörðuhálsinn. Spurður út í þær fregnir að eldfjall sé að myndast við gosstöðvarnar segir Ármann að það sé orðum aukið að tala um fjall. Þarna séu gígar farnir að myndast.

„Gígarnir hlaða sig upp og það er mjög eðlilegt. Við sáum það í morgun. Þetta eru bara venjulegir eldgígar, kannski hundrað metra háir," sagði Ármann Höskuldsson við mbl.is er hann var á leið niður jökulinn til byggða.

Ármann Höskuldsson
Ármann Höskuldsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka