Ögmundur segir RÚV brjóta áfengislög

Ögmundur Jónasson ræðir við fréttamenn utan við Stjórnarráðið.
Ögmundur Jónasson ræðir við fréttamenn utan við Stjórnarráðið. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, spurði Pál Magnússon, útvarpsstjóra, úr ræðustóli Alþingis í gær „hvers vegna hann láti það viðgangast að dagskrá, til dæmis Kastljóssins, sé aftur og ítrekað rofin til þess að fremja það sem ég kalla í reynd lögbrot“. Vísaði hann til þess að í auglýsingatímum RÚV séu sýndar áfengisauglýsingar.

Fyrsta umræða um frumvarp til breytinga á áfengislögum fór fram á Alþingi í gær en Ögmundur er fyrsti flutningsmaður. Frumvarpið gengur út á að banna auglýsingar á vörum með sömu merkjum eða einkennum áfengistegunda. Málið hefur fimm sinnum áður verið lagt fram en ekki fengið afgreiðslu.

Ögmundur sagði mjög gagnrýnivert að „fjölmiðlar skuli leyfa óprúttnum framleiðendum og söluaðilum að fara framhjá lögunum og nýta sér þá glufu sem er í þessari löggjöf“. Því næst beindi hann spurningu sinni til útvarpsstjóra og sagði RÚV sýna auglýsingar þar sem einstaklingum séu á bjórþambi, og það gangi þvert á anda laganna.

„Nú hefur Sjónvarpið og ekki síst Kastljósið sýnt okkur að það er afar sómakært, eða vill vera sómakært, hvað áfengisneyslu áhrærir og ég spyr, er nú ekki kominn tími til að sýna þann sóma í verki, háttvirtur útvarpsstjóri Páll Magnússon?“

Horfir til norskrar löggjafar

Ögmundur sagðist hafa spurt fyrrverandi menntamálaráðherra sömu spurningar og fengið þau svör að fjölmiðlar gætu í reynd ekki ritskoðað auglýsingar ef bókstafur laganna er ekki brotinn.

Ögmundur sagðist hafa orðið var við að þingmenn séu almennt honum sammála um það meginsjónarmið að reglurnar eigi að vera skýrar. Hann vísaði þá í skýrslu sem unnin var á vegum ríkislögreglustjóra um áfengisauglýsinga árið 2001. Í henni er bent á að í Noregi taki bann við áfengisauglýsingum einnig til auglýsinga á vörum með sömu merkjum eða einkennum.

Í skýrslunni segir m.a.: „Það sem vekur sérstaka athygli við norsku löggjöfina er áherslan sem lögð er á að menn geti ekki komist fram hjá banninu með því að auglýsa vöru sem heimilt er að auglýsa, en með svo sterkri tilvísan til vöru sem ekki er heimilt að auglýsa að í raun er verið að auglýsa þá vöru. Með því að auglýsa tiltekna vöru sé í raun verið að auglýsa aðra vöru. Þá virðist löggjöfin skýr og nútímaleg.“

Frumvarp Ögmundar

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert