„Líkt og kvikni í ísnum“

Gosið á Fimmvörðuhálsi er hvergi nær í rénun þó það hafi verið nokkuð stöðugt undanfarin sólarhring. Að sögn Rúnar Pálmasonar, blaðamanns Morgunblaðsins, rísa eldsúlurnar marga tugi metra í loft og rennsli hraunsins feikilega hratt. Gríðarlegir gufubólstrar myndast þegar hraunið kemst í snertingu við ís í botni Hrunaárgils og „hreinlega líkt og kvikni í ísnum,“ að sögn Rúnars.

Rúnar hóf göngu snemma í morgun frá Skógum og tók ferðin tæpa fjóra tíma, um fimmtán kílómetrar. Hann segir færið hafa verið ágætt og hann hafi farið eins hratt yfir og hægt var, en stíf norðanátt hafi þó hægt aðeins á.

Við gosstöðvarnar hafi m.a. verið hópur vélsleðamanna og þýskur eldfjallaljósmyndari en einnig hafi flugvélar verið áberandi. Samtímis voru fjórar flugvélar á lofti sem sveimuðu yfir eldgosinu.

Ljóst er að sýna verður fulla aðgát við gosstöðvarnar og dæmi um að fólk hafi fengið yfir sig eiturgufur, að sögn Rúnars en þá verði mönnum þungt fyrir brjósti. Bætir hann þó við að viðkomandi hafi ekki verið meint af, enda fært sig í skyndi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert