Um 50 ferjaðir með þyrlum

Fólk var ferjað af Heljarkambi og úr Bröttufönn vegna nýju …
Fólk var ferjað af Heljarkambi og úr Bröttufönn vegna nýju sprungunnar sem opnaðist rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Kristinn Garðarsson

Um 50 manns fengu far með þyrlum Landhelgisgæslunnar og Norðurflugs af Heljarkambi og Bröttufönn í kvöld. Fólkið var ferjað niður á Morinsheiði þaðan sem það gekk niður í Þórsmörk. TF-LÍF og þyrlur frá Norðurflugi og Þyrluþjónustunni ferjuðu fólkið. Þyrlurnar bíða nú í viðbragðsstöðu við Hótel Rangá og á Skógum.

Nú er búið að ná stjórn á vettvangi við gosstöðvarnar, samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarmiðstöð.  Ferðamönnum við gosstöðvarnar  hefur verið snúið aftur til Skóga og niður í Þórsmörk  og einnig  hefur farartækjum á Mýrdalsjökli verið snúið til baka.

Byggð umhverfis Eyjafjallajökul er ekki talan stafa hætta af nýrri gossprungu á Fimmvörðuhálsi. Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið í sambandi við Samhæfingarstöð og telur að um sé að ræða sprungu frá sömu gosrás.   

Rétt fyrir sjö í kvöld opnaðist ný sprunga við gosstöðina á Fimmvörðuhálsi. Svæðið í kringum gosstöðina var rýmt af lögreglu og björgunarsveitarmönnum, sem voru á vakt á svæðinu.

Ferðalöngum á leið að gosstöðinni var snúið frá, að sögn Almannavarna. Ákveðið var að loka vegum í varðúðarskyni inn í Þórsmörk, á Mýrdalsjökul um Sólheimajökul og við Skóga. Samband var haft við skálaverði í Þórsmörk og þeir upplýstir um stöðuna. Ekki er hætta í byggð vegna þessara breytinga á gosstöðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka