„Þetta var algjörlega magnað, að sjá þetta," segir Agnes Bragadóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, nýkomin niður af gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Fór hún upp úr Þórsmörk í dag ásamt fleirum, eftir að umferð var hleypt á að nýju eftir hádegið.
Gekk Agnes Morinsheiði á enda og horfði á rauðglóandi hraunið vella fram, en fólki var bannað að fara upp Bröttufönn.
„Þetta er búinn að vera stórkostlegur dagur og fjallasýnin frábær. Á leiðinni niður sáum við hraunsúluna í loft upp, hún var farin að spýja það hraustlega. Ferðin var algjörlega þess virði þó að hún hafi verið erfið," segir Agnes.
Hún segir fjölda fólks hafa verið þarna á ferð í dag og á leiðinni niður hafi hún mætt mörgum sem ætluðu greinilega að verða vitni að eldgosinu í ljósaskiptunum og áfram í kvöld.
„Þetta var einstigi niður og á köflum mjög erfitt að mætast á Kattarhryggnum. Þverhnípi var sitt hvoru megin og maður bara hékk í bandi á leiðinni," sagði Agnes í samtali við mbl.is.