Maðurinn sem leitað hefur verið að Fjallabaki síðan í nótt er fundinn. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli fannst maðurinn í um 4-5 km fjarlægð suður af bílnum rúmlega hálf tíu í kvöld. Ekki er hægt að fá upplýsingar um líðan mannsins að svo stöddu.
Um 280 björgunarsveitamenn úr 28 sveitum tóku þátt í leitinni í dag.
Leitarsvæðið afmarkaðist af Mýrdalsjökli, Markarfljóti og Mælifellssandi og voru leitarskilyrði ágæt fyrir vélsleða og skíðamenn þar sem snjór var yfir öllu. Meðan á leitinni stóð gekk á með kröppum éljum en á milli var bjart og leitaraðstæður þokkalegar, að sögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar.