Kona og karlmaður sem leitað var að frá því aðfaranótt þriðjudags fundust látin síðdegis og seint í gærkvöldi við Bláfjallakvísl. Fólkið var á ferð við þriðja mann, konu sem fannst á gangi um miðjan dag í gær. Líðan hennar var í gærkvöldi eftir atvikum góð.
Talið er að fólkið hafi farið að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi snemma páskadagskvölds. Það hafi verið á heimleið, á Honda CRV-jepplingi, þegar það villtist af leið.
Um klukkan eitt eftir miðnætti aðfaranótt mánudags bað ökumaður jepplingsins um aðstoð björgunarsveitar. Þá var bíllinn talinn vera kominn á aurana innan við Tröllagjá, sem er innan við Gilsá og á leiðinni að Einhyrningi.
Lögregla og björgunarsveitir leituðu á svæðinu í um fimm klukkustundir en árangurslaust. Á sama tíma var fólkið í stöðugu símasambandi við lögreglu. Um klukkan 6.30 á mánudagsmorgun afþakkaði fólkið svo aðstoð. Ökumaður jepplingsins kvaðst þá búinn að losa hann og vera kominn á slóða.
Um klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags höfðu ættingjar fólksins samband við lögreglu. Þeir höfðu þá áhyggjur enda höfðu þeir ekkert frétt af ferðum fólksins.
Hófst þá þegar um nóttina umfangsmikil leit. Þegar mest lét voru um 270 björgunarsveitamenn frá Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu við leit auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð. Leitað var á bifreiðum og vélsleðum, göngufólk og skíðagöngufólk tók þátt í leitinni auk þess sem leitarhundar voru til aðstoðar. Um miðjan dag í gær fannst 33 ára kona á gangi við Emstruleið, ofan við Einhyrning. Hún var köld og hrakin en annars við góða heilsu.
Síðdegis, í níu kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem konan fannst, við Bláfjallakvísl, fannst svo bíll fólksins, mannlaus og bensínlaus. Skammt frá honum var 43 ára kona. Hún var látin þegar að henni var komið.
Leit að karlmanninum var haldið áfram í gærkvöldi og um klukkan 21.30 fannst lík hans. Það var í um 4-5 km fjarlægð suður af bifreiðinni. Maðurinn var 55 ára að aldri.
Ekki er hægt að greina frá nöfnum hinna látnu að svo stöddu.