Fólk gengur á dúandi hrauninu

Mikil hætta fylgir því að fara út á nýrunnið hraunið.
Mikil hætta fylgir því að fara út á nýrunnið hraunið. Ragnar Axelsson

Dæmi eru um að fólk hafi gengið út á nýrunnið hraun við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi „af því það dúaði svo skemmtilega“, að sögn Sveins K. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli. Hann segir forkastanlegt að fólk láti sér detta annað eins í hug. Gæsla verður við gosstöðvarnar í kvöld.

Sveinn sagði að töluvert margir  hafi verið við gosstöðvarnar í gær. Þangað komu um 100 bílar. Flestir ferðamannanna hegðuðu sér óaðfinnanlega en innan um voru nokkrir sem önuðu „út í tóma dellu“ eins og Sveinn orðaði það.

„Þær fréttir sem ég fékk ofan af gosstöðvunum í gærkvöldi voru að nýjasta sportið væri að ganga uppi á hrauninu því það dúaði svo skemmtilega,“ sagði Sveinn. Hann sagði slíkt framferði vera langt utan við öll skynsemismörk og forkastanlegt að fólk láti sér detta annað eins í hug.

Einungis sólarhringur er liðinn síðan hætti að gjósa í sprungunni sem opnaðist fyrst. Sveinn sagði engan vita hvort hún eigi eftir að láta aftur á sér kræla. Hann minnti á að enn gildi kílómeters bann við umferð í nánd gosstöðvanna.

Sveinn sagði að sig hafi sett hljóðan við að fá fréttir af akstri Top Gear upp á hraunið. „Þeir fengu heimild til að fara inn fyrir lokanir, eins og aðrir fjölmiðlamenn hafa fengið, en ekkert út fyrir það. Þeir hefðu aldrei nokkurn tíma fengið heimild til þess að keyra upp á hraunið. Ekki undir nokkrum kringumstæðum,“ sagði Sveinn.

„Að menn skuli setja nafn sitt við þetta finnst mér með ólíkindum. Ég er orðlaus yfir því.“

Áframhaldandi gæsla við gosstöðvarnar

Gert er ráð fyrir að gæsla verði við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í kvöld og einnig um helgina. Reiknað er með að björgunarsveitir og lögregla annist gæsluna eins og hingað til. Einhver gæsla verður einnig Þórsmerkurmegin. Sveinn minnti á að Heljarkambur og Brattafönn séu á bannsvæði og að þangað eigi fólk ekki að fara. 

Nokkrir hafa gert sér að leik að ganga út á …
Nokkrir hafa gert sér að leik að ganga út á nýrunnið hraunið á Fimmvörðuhálsi. Slíkt athæfi er langt utan við öll skynsemismörk að mati lögreglumanns. RAX / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka