Smitandi hósti í hrossum

Veikin í hrossunum er smitandi.
Veikin í hrossunum er smitandi. mbl.is Ómar Óskarsson

Í síðustu viku var til­kynnt um smit­andi hósta í hross­um á Hól­um í Hjalta­dal og nokkr­um ná­granna­bæj­um. Hóst­inn er alla jafna væg­ur og hross­in ekki sýni­lega veik að öðru leyti, t.d. ekki með  hita, en nefrennsli get­ur fylgt sem verður graft­ar­kennt þegar á líður. Ein­kenn­in ganga yfir á einni til tveim­ur vik­um.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Mat­væla­stofn­un. Hægt er að rekja upp­haf veik­inn­ar 3-4 vik­ur aft­ur í tím­ann og því ljóst að ekki er mögu­legt að ein­angra hana við til­tek­in lands­svæði. Nú ber­ast til­kynn­ing­ar um sam­bæri­leg ein­kenni í hross­um víða á Suður­landi og virðist sem hóst­inn hafi tekið að breiðast út á svipuðum tíma sunn­an lands og norðan.
 
Sýni úr veik­um hross­um eru nú til rann­sókn­ar á Til­rauna­stöðinni á Keld­um og sýni hafa einnig verið send til grein­ing­ar í Svíþjóð.
 
Þó svo um væg­an sjúk­dóm sé að ræða er hesta­mönn­um ráðlagt að hvíla hross sem hósta enda bend­ir allt til þess að hvíld og góður aðbúnaður  hjálpi hross­um að kom­ast yfir þessa sýk­ingu.

Ekki hafa verið sett­ar höml­ur á flutn­inga hrossa eða móta­hald en hesta­menn eru hvatt­ir til að sýna varúð og vera ekki á ferðinni með veik hross.
 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert