Rýming við Eyjafjallajökul

Rýma á bæi undir Eyjafjallajökli.
Rýma á bæi undir Eyjafjallajökli. mbl.is/rax

Jarðskjálftahrina er hafin undir toppi Eyjafjallajökuls.  Í samráði við jarðvísindamenn á Veðurstofu Íslands hefur verið tekin ákvörðun um rýmingu sunnan jökulsins öryggisskyni.   Rýmt verður frá Markarfljóti í vestri austur að Skógum og nú er verið að hringja á þá bæi  sem beðnir eru um að rýma.   Lögreglan á Hvolsvelli og björgunarsveitir hafa umsjón með rýmingunni.   Samhæfingarmiðstöð hefur verið virkjuð og fylgst er með framvindu í samvinnu við jarðvísindamenn.    

Bergþóra Þorbjarnardóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir hrinuna „sérstaklega öfluga“ og skjálftana marga. Þeir stærstu eru yfir 2,5 stig. Þessu fylgir gosórói í toppgíg jökulsins, vestar en verið hefur og undir ís. Hrinan stendur enn.

 Lögreglan á Hvolvelli hefur enn ekki nákvæma tölu á fjölda bæja sem þarf að rýma.

Jarðskjálftahrinan hófst um kl. 23 í kvöld. Virkni á svæðinu hafði verið lítil sólarhringinn þar á undan og jarðvísindamenn töldu gosinu á Fimmvörðuhálsi líklega lokið.

 Þekkir þú til? Fannstu skjálfta? Býrðu á svæðinu? Vinsamlega hafðu samband  á netfrett@mbl.is

Hér sést rýmingarsvæði vegna eldgosa í Eyjafjallajökli.
Hér sést rýmingarsvæði vegna eldgosa í Eyjafjallajökli.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka