Vegurinn inn að Leirnahverfi undir Eyjafjöllum sópaðist burtu á stórum kafla þegar flóð hljóp í Svaðbælisá, sem er við bæinn Þorvaldseyri. Gríðarlega mikið hefur gengið á í Fellsgili skammt frá bænum. Þar hefur flóðið hlaðið upp 10-15 metra háu grjótstáli.
Nokkrir bæir eru í Leirnahverfi, en vegurinn er hringvegur og því geta íbúar komist heim til sín úr annarri átt.
Í ljós hefur komið að mikið af aur, grjóti og drullu hefur borist inn á túnið á bænum Önundarhorni. Verulegt tjón hefur því orðið á túninu. Túnin á Þorvaldseyri sluppu hins vegar betur.
Bændur á Þorvaldseyri hafa unnið að því að koma vatni á fjósið. Líkur eru á að kaldavatnsleiðsalan hafi ekki farið í sundur í flóðinu eins og óttast var. Dæla, sem dælir vatninu, hafði hins vegar slegið út.
Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri segir ótrúlegt að líta inn í Fellsgil ofan við bæinn. Þar hafi flóðið náð að hlaða upp 10-15 metra háu grjótstáli. Þessi ummerki sýni betur en flest annað þá gríðarlegu krafta sem hafi verið að verki.