„Þetta er viðbjóður. Það er hreint ótrúlegt að upplifa þetta. Þetta er miklu verra en ég reiknaði með,“ sagði Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, sem í gær horfði á öskumökkinn gleypa bæinn sinn.
„Við opnuðum hurðina í gærkvöldi, rétt augnablik og þá kom fýll inn til okkar. Hann hafði flogið í átt að ljósinu,“ sagði Páll Eggert. Hann sagði að annar fýll hefði verið á vappi fyrir utan bæinn. Hann sagðist hafa heyrt frá fleiri bæjum undir Eyjafjöllum að fýlar væru á hlaðinu. Það gæti varla verið annað en fuglar í talsverðum mæli væru að drepast í þessum ósköpum.
„Ég er bara í sjokki,“ sagði Páll Eggert þegar hann var spurður hvernig væri að upplifa þetta. „Mann langar bara að sofa áfram og ekki þurfa að horfa á þetta,“ sagði Páll Eggert við mbl.is í morgun, skömmu áður en hann lagði af stað frá Varmahlíð, þar sem hann svaf í nótt, að Þorvaldseyri til að mjólka kýrnar.