Millibilsástand í eldgosinu

Myndin er tekin úr flugvél Landhelgisgæslunnar í gær.
Myndin er tekin úr flugvél Landhelgisgæslunnar í gær. Kristinn Ingvarsson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur að eldgosið í Eyjafjallajökli sé nú á ákveðnu millistigi og að færast úr sprengigosi og meira yfir í að vera hraungos. Það kann þó að breytast aftur lendi kvikan á ný í miklu vatni úr bráðnandi jökulís. Enn er nóg af ís í kringum eldstöðina.

„Óróinn er stöðugur og kvika örugglega á hreyfingu. En það hefur dregið mjög mikið úr sprengingunum, sennilega vegna þess að kvikan er að koma meira upp án þess að lenda í vatni. Hún springur ekki eins mikið og myndar hraunklepra og slettur og er að mynda þarna gíg úr hraunslettum. Sennilega er komin hrauntjörn þarna neðarlega í gígnum,“ sagði Haraldur.

Hraun getur runnið yfir ís

Hann sagði einnig mögulegt að hraun geti runnið yfir ís, svo ótrúlega sem það hljómar. Dæmi um slíkt eru þekkt úr jarðfræðinni, þótt menn hafi ekki orðið vitni að slíkri atburðarás hingað til.

„Hraunið hleður undir sig gjalli sem einangrar furðu vel. Til dæmis runnu mjög gömul hraun í Öskju yfir ís. Þar var lag af ís undir. Auðvitað bráðnar ísinn eitthvað en hraun getur runnið yfir ís,“ sagði Haraldur. 

MODIS gervihnattamyndin sýnir hvernig aska barst á haf út frá …
MODIS gervihnattamyndin sýnir hvernig aska barst á haf út frá eldstöðinni og einnig af Mýrdalsjökli. Myndin var tekin kl. 12.50 í dag. www.vedur.is/MODIS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert