Vefur um íslensk handrit var opnaður á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í morgun. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnaði vefinn formlega. Á handritavefnum er að finna handrit frá margra alda tímabili.
Á ársfundinum var m.a. bent á þau miklu verðmæti sem felast í þeim fjölbreyttu gögnum sem stofnunin varðveitir. Þar á meðal eru handrit, örnefnaskrár, þjóðfræðiefni og orðafræðisöfn. Stofnunin hefur markað sér stefnu um opinn aðgang að þeim.
Með opnun handritavefjarins er veittur rafrænn aðgangur að handritum sem varðveitt eru í Árnasafni í Kaupmannahöfn, handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig er veittur aðgangur að stafrænum myndum af handritunum.
Nú þegar hafa um 200.000 blaðsíður verið myndaðar og eru mynduð handrit 851.