Ekki tilkynningar um öskufall

Gosmökkurinn séður með vefmyndavél Mílu á Hvolsvelli.
Gosmökkurinn séður með vefmyndavél Mílu á Hvolsvelli.

Fjöldi slökkvibíla og slökkviliðsmannavinnur nú að því að þvo hús á öskufallssvæðinu.  Lögreglan á Hvolsvelli segir rólega virkni í eldstöðinni, ekki hafi borist tilkynningar um neitt öskufall en öskumistur er nokkuð vestan við eldstöðina, svo sem í Fljótshlíð og á Hvolsvelli.
 
Vatnsmælingar Veðurstofunnar sýndu, að yfirborð Markarfljóts hækkaði í nótt og er það í samræmi við jarðskjálftavirkni.  Þetta kom fram á upplýsingafundi fyrir fjölmiðla í Skógarhlíð í morgun. 

Jafnframt kom fram að erfitt hefði verið að fylgjast með gosvirkni með gervihnattamælingum vegna þoku í  gær. Ratsjármælingar sýndu enga ösku en hún er enn til staðar. Að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hafði gosstrókurinn breyst á áttunda tímanum í morgun og var farinn að breiða sér meira lárétt en lóðrétt samkvæmt sérfræðingum Veðurstofu, líklega vegna norðvestlægrar áttar en hugsanlega einnig vegna þess að það varð örlítið landsig um kl. 3 í nótt.
 
Öskufalli er spáð norðvestur af eldstöðinni í dag, í nágrenni hennar, en öskumistur gæti náð eitthvað vestar.  Ekki er spáð öskufalli á höfuðborgarsvæðinu.  
 
Umhverfisstofnun mælir loftgæði á landinu og fylgist vel með mælum.  Tilkynningar verða gefnar út ef mælingar sýna svifryksmengun yfir hættumörkum og þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum.  Fólki er bent á að fylgjast með fréttum og upplýsingum og leiðbeiningum á heimasíðu almannavarna, almannavarnir.is og á heimasíðu umhverfisstofnunar, ust.is.
 
Umhverfisstofnun setti upp loftgæðamæli á Kirkjubæjarklaustri fljótlega eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli, en þar hefur engin sýnileg aska verið.  Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar mældist svifryk þar undir mörkum, en verstu gildi sem mældust þar voru sambærileg við slæman umferðardag í Reykjavík.  Loftgæðamælirinn hefur nú verið færður til Víkur.  Vegalengd frá eldstöð að Kirkjubæjarklaustri eru rúmir 80 km.  Sama vegalengd í vesturátt frá eldstöð nær allt að Laugarvatni eða rétt vestur fyrir Selfoss.
 
Í Samhæfingarstöð almannavarna er náið fylgst með framvindu eldgossins á Eyjafjallajökli og reglulegir stöðufundir haldnir með þeim fjölmörgu stofnunum og fyrirtækjum sem koma að málum.   Fundur verður haldinn í Samhæfingarstöð í hádeginu með flugmálayfirvöldum, Landhelgisgæslu Íslands og Veðurstofu Íslands vegna lokana flugvalla þar sem reynt verður að spá fyrir um millilanda- og innanlandsflug næstu daga.  Áfram er unnið hörðum höndum að áætlanagerð vegna truflana á flugi.
 
Af öryggisástæðum voru flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, og þyrlan TF-GNA fluttar til Akureyrar þar sem búast má við að loftrýmið umhverfis Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll lokist fyrir blindflugsumferð í ákveðinn tíma í dag í ljósi spár um gjóskudreifingu fyrir daginn.
TF-SIF flaug yfir gosstöðvarnar í morgun á leið til Akureyrar og hafa ratsjármyndir verið sendar Veðurstofu og Raunvísindastofnun til upplýsinga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert