„Aðkoman er mjög sérstök því það er mjög stór og mikil rás í jöklinum og þarna eru mikilfenglegar jökulbrýr,“ segir Jón Viðar Sigurðsson, jarðfræðingur, sem í dag skoðaði ummerkin á sunnanverðum Eyjafjallajökli. „Þetta var að vísu svarthvítur heimur. Það var skýjað þannig að við sáum ekkert nema hvítan jökulinn og svarta ösku.“
Fyrsta daginn sem gaus í Eyjafjallajökli opnaðist gígur sunnan við upphaflega sprunguna, segir Jón Viðar. Gígurinn bræddi töluvert vatn sem að lokum ruddi sér leið upp úr jöklinum og myndaði mikið flóð sem skilaði sér í Svaðbælisá og flæddi yfir tún við Þorvaldseyri.
Vegna gjóskufalls hefur ekki hefur verið hægt að skoða ummerkin á sunnanverðum jöklinum fyrr en í dag, sem Jón Viðar segir stórbrotin. „Gígurinn var í um 1450 m hæð og nokkru neðar hefur vatnið brotið sér leið upp á jökulinn og myndað breiðan farveg í fyrstu en síðan náð að grafa sig niður í jökulinn og er rásin allt að 50 m djúp. Á nokkrum stöðum má sjá mikilfenglegar jökulbrýr þar sem vatnið hefur náð að naga sig niður í jökulinn.“
Hann ítrekar þó að ekki sé ástæða til að hvetja almenning til að skoða svæðið. Auðvelt sé að villast þar auk þess sem hættulegt sé að fara út á jökulbrýrnar sem á endanum munni falla.