Katla gæti gosið innan 15, 10 eða 5 ára, jafnvel fyrr, að sögn Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem varaði Bandaríkjamenn við eldfjallinu í viðtali við sjónvarpsstöðina CNBC. Líklegt er að sambærileg ummæli forsetans á BBC kunni að hafa kostað íslenska þjóðarbúið milljarða króna.
Þótt forsetinn bendi á óvissuna í slíkum spám eru sterkar vísbendingar um að umræðan um þær geti ein og sér haft mikinn fælingarmátt.
Merkilega lítið hefur verið fjallað um viðtalið á CNBC fyrir helgi þrátt fyrir þá spá forsetans að fækkun í bókunum ferða til landsins muni vara í nokkrar vikur. Svo athyglisvert þykir viðtalið að útskrift þess er boðin til sölu á vef Federal News Service og er verðið 5 bandaríkjadalir fyrir síðuna, alls 25 dalir fyrir 5 síður, að sögn starfsmanns FNS í Washington.
Þannig kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag, að útlit sé fyrir að íslenska þjóðarbúið verði af milljörðum króna í formi glataðra gjaldeyristekna vegna hruns í ferðabókunum til landsins.
Miðað við áframhaldandi 6-7% vöxt í greininni og að enginn vöxtur verði í ár þykir mega ganga út frá að tjónið nemi að minnsta kosti 9-11 milljörðum króna, sé reiknað út frá 155 milljarða gjaldeyristekjum á síðasta ári.
Fljótt flýgur gossagan
Forsetinn bendir bandarískum áhorfendum CNBC á að Íslendingar hafi sett saman neyðaráætlanir komi til eldgoss en til myndskreytingar velur sjónvarpsstöðin dramatísk myndbrot af gosinu í Eyjafjallajökli.
Fram kemur á fréttaleitarvél Google, www.news.google.com, að nafn forsetans komi fyrir í mörg þúsund fréttum víðsvegar að úr heiminum, svo ljóst er að ummælin hafa fengið byr undir báða vængi.
Forsetinn á þátt í þeirri útbreiðslu enda varar hann áhorfendur CNBC við að gos í Kötlu kunni að lama flugsamgöngur víða um heim.
Fleiri eldgos í vændum
Og það er aðeins forsmekkurinn. Fram undan kunni að vera jafnvel enn fleiri eldgos á næstu 20-30 árum.
Athygli vekur að forsetinn spáir áframhaldandi fækkun í bókunum á næstu vikum en það er þvert á yfirlýst markmið talsmanna ferðaþjónustunnar.
Forsetinn var að vanda háfleygur í orðavali og lýsti atburðarásinni á Íslandi svo að þar megi verða vitni að sköpun heimsins.
Vísar í Mósebók
Þannig komi fram í sköpunarsögu fyrstu Mósebókar að sköpun heimsins hafi tekið 6 daga, sköpun sem enn sé í gangi á Íslandi.
Forsetinn tekur sérstaklega fram að Íslendingar setji öryggið í öndvegi og bendir á að enginn hafi látið lífið af völdum gossins á Íslandi eða í öðrum löndum.
Þegar blaðakonan, Bartiromo, bar viðbrögð Evrópusambandsins við hinni miklu röskun á flugi undir forsetann mátti lesa úr orðum hans gagnrýni á andvaraleysi sambandsins andspænis ógninni. Samhæfa þurfi betur viðbragðsáætlanir sambandsins.
Framtíðarhorfur í efnahagslífi þjóðarinnar eru einnig bornar undir forsetann og svarar hann því þá til að hans tilfinning sé að hagkerfið byrji að vaxa á síðari hluta ársins, spá sem mögulegur samdráttur í ferðaþjónustu gæti vegið á móti.