Hraun hefur nú runnið um einn kílómeter frá eldgígnum á toppi Eyjafjallajökuls, í átt að Gígjökli, að mati Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors. Hann flaug yfir gosstöðvarnar fyrr í dag. Magnús Tumi sagði að fremur lítill gosmökkur stígi í 10-12 þúsund feta hæð og leggi til vestnorðvesturs.
Magnús Tumi telur að eldgosið sé í meginatriðum enn á svipuðu róli og undanfarna daga. Dálítið öskufall er frá gosmekkinum á jökulinn næst eldstöðinni. Magnús Tumi sagði að smávegis aska hafi borist til norðvesturs á síðustu dögum og eru Tindfjöll, Tindfjallajökull og fjöllin þar í kring grálituð af ösku.
Vísindamennirnir gátu nú skoðað gosstöðina sunnanmegin frá í annað skiptið frá því að gosið hófst. Hún sást fyrst sunnanfrá snemma í síðustu viku. Nú var mjög gott skyggni þeim megin.
„Jökullinn er mjög þunnur þar en það er að myndast sigdæld utan um eitt gatið. Það er hægt og rólega að bráðna þar í kring en það er ekkert vatn að safnast þar upp,“ sagði Magnús Tumi.
Hægt var að mæla hitastig hraunsins með hitamyndavél og reyndist hraunjaðarinn vera um 200°C heitur. Þar er hraunið upp við ísstál og leggur töluvert mikla gufu þar upp.