Hvíta gufubólstra lagði upp af Gígjökli í gærkvöldi. Þeir eru taldir sýna hvað hraunið hefur runnið langt niður jökulinn.
„Það rýkur úr vatninu í gilinu. Maður heyrir drunur og svo fossar vatnið fram með offorsi,“ segir Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem var við mælingar og athuganir við Gígjökul í gær. Hraunið bræðir mikið vatn sem virðist lenda á fyrirstöðu og svo þegar hún losnar fossar það fram. Krapi er í vatninu. Vísindamennirnir sáu ekki til hraunsins vegna þoku og urðu heldur ekki varir við hraunmola koma með jökulvatninu eins og fólk hafði séð í fyrradag.
Mikil gjóska er í bræðsluvatninu og hefur framburðurinn myndað árkeilu undir gilinu við Gígjökul. Ekki tókst vísindamönnunum að mæla keiluna þar sem hún var umflotin vatni og ekki hægt að komast að henni.
Öskufall varð undir austurhluta Eyjafjalla í gær. Askan var dökk og fínkorna. Fyrirhugað var að halda hreinsun áfram á bæjum undir fjöllunum um helgina en því verki hefur verið frestað vegna öskufallsins.
Sjá nánar um eldgosið, áhrif þess og afleiðingar, í Morgunblaðinu í dag.