Helgi S. Ragnarsson mjólkurfræðingur var nýbúinn að færa sig í mötuneyti Mjólkursamlags KS þegar jeppi ók í gegnum rúðu mötuneytisins í hádeginu. Hann segir kraftaverk að engan hafi sakað.
Fimm voru inni í matsalnum þegar óhappið varð. „Það hefði getað farið verr. Við erum þrjú sem sitjum þarna nánast við gluggann og hann hefði getað farið yfir okkur,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
Hann segir að hópurinn hafi fært sig aðeins innar, eða sem nemur einni borðlengd, rétt áður en áreksturinn varð. „Ég lendi að vísu fyrir bílnum. Ég ýtist með honum þangað til hann var stoppaður,“ segir Helgi og bætir við að hann hafi sloppið með minniháttar skrámur. Jeppinn staðnæmdist þegar hann hafnaði á burðarsúlu í mötuneytinu.
„Þetta er einhver lukka sem var þarna yfir, að við skyldum vera búnir að færa okkur einhverra hluta vegna. Ég er búinn að vera hérna í 34 ár og ég man ekki einu sinni til að bíll hafi farið hérna inn í garðinn.“ Aðeins sé um mánuður liðinn frá því kaffistofan var tekin í notkun.
„Ég veit ekki af hverju ég stóð upp og færði mig. Ég bara skil það ekki,“ segir Helgi.
Að sögn slökkviliðs var ökumaður jeppans fluttur á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks til aðhlynningar. Talið er að hann hafi fengið aðsvif með fyrrgreindum afleiðingum.