Umferðaróhapp varð á Sauðárkróki í hádeginu þegar jeppi ók á glerbyggingu í bænum. Að sögn slökkviliðs var ökumaðurinn fluttur á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks til aðhlynningar. Hann er ekki alvarlega slasaður. Engan annan sakaði í árekstrinum.
Bíllinn ók inn í nýlega viðbyggingu Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga við Skagfirðingabraut, þar sem eru kaffistofur og mötuneyti. Að sögn slökkviliðs er mildi að enginn hafi orðið fyrir bifreiðinni.
Talið er að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif með fyrrgreindum afleiðingum.
Tilkynning barst um klukkan 12:30.