„Droparnir eru svartir. Ég hljóp sem snöggvast út í bíl og utanyfirflíkin sem ég var í bar merki öskufallsins þegar ég kom inn aftur,“ segir Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir fréttaritari mbl.is í samtali. Þétt öskufall var á Hvolsvelli í morgun og liggur askan yfir bílum og á húsum.
„Hér var svört rigning og allt dökkt, segir Steinunn. „Núna er hins vegar aðeins að rofa til en svart öskuský liggur yfir Landeyjunum að sjá.“Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að Suðurlandsvegur sé opinn almennri umferð en vegfarendur eru engu að síður beðnir að sýna fyllstu aðgát, bæði vegna ösku og viðgerðar á vegum við Markarfljót. Ef blaut aska er á vegi getur orðið mjög hált.