SS býðst til að slátra fé fyrir bændur

Sláturfélag Suðurlands hefur boðist til að slátra fé fyrir bændur á Suðurlandi í næstu viku. Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS á Hvolsvelli, segir að haft hafi verið samband við alla deildarstjóra í sveitunum við Eyjafjallajökul í dag.

„Við bjóðum upp á það, ef bændur vilja slátra sauðfé í næstu viku. Þá munum við leysa það,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. „Það eru kannski einstaka geldfé sem menn vilja losna við af húsi,“ bætir hann við. Stefnt sé að því að slátra því í sláturhúsinu á Selfossi næstkomandi fimmtudag. Dagurinn verði tekinn frá í þetta verkefni.

Guðmundur segir að það hafi verið ákveðið að bjóða bændum upp á þennan valkost í dag. Viðbrögð bænda hafi verið jákvæð.

„Fyrirtækið er í eigu bændanna og við erum að þjónusta þá eins og við getum. Ef þeir þurfa að losna við eitthvað, og ef það er eitthvað sem við getum létt undir með þeim í þessum hörmungum, þá er það bara hluti af okkar starfsemi,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert