Femínistafélag Íslands fagnar því að til standi að kynjagreina Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið og orsakir þess. Ólafur Arason, ráðskona vefhóps félagsins, segir stuðninginn ganga þvert á flokkslínur.
Eins og fram kom í viðtali fréttavefjar Morgunblaðsins við Atla Gíslason, þingmann VG og formanns þingmannanefndar sem mun skila áliti um skýrsluna, er til skoðunar að láta kynjagreina skýrsluna á næstunni.
Ólafur fagnar frumkvæðinu.
„Ég held að það sé alltof sjaldan kannað hver skipting kynjanna er varðandi svona hluti. Það er bæði verið að reyna að kynjagera fjárlagagerð og fleiri hluti til þess að átta sig betur á því hvernig það hallar á kynin á báða bóga.“
- Telurðu að þetta sé vísir að almennri stefnumótun þar sem leitast verði við að kynjagreina það sem snýr að ríkisrekstrinum?
„Já. Mér finnst að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hafa í huga. Konur og karlar eru 50% af þjóðinni þannig að það er óeðlilegt að það halli á annað hvort kynið [...] Í flestum greinum hallar á konur og það er því gott að sjá á blaði hvernig staðan er.“
Aðspurður hvort hann telji að karllæg hegðun hafi átt sinn þátt í orsökum bankahrunsins leggur Ólafur áherslu á að bæði kynin geti sýnt fram á áhættusama hegðun. Orsakanna sé því ekki einvörðungu að leita í eðli hvors kyns.
- Telurðu að karlar hafi hugsanlega gegnt veigameira hlutverki í hruninu og orsökum þess en konur?
„Ég myndi segja að vissar ábyrgðarstöður hafi augljóslega verið í höndum karla en maður veit það samt ekki því sú vinna hefur ekki farið fram. Karlar eru samt í meirihluta í þessum geira, viðskiptafræðinni, bönkunum og fleiri stofnunum. Þannig að það er líklegt en maður getur aldrei sagt til um það með vissu fyrr en búið er að rannsaka það.“
- Þannig að þér finnst að rannsaka þurfi hvort karllæg hegðun hafi verið orsakavaldur í þessu samhengi?
„Ég veit ekki hvort ræða eigi um beint eðli karla eða kvenna vegna þess að fólk hagar sér með mismunandi hætti. Það skortir líka upplýsingar um hvernig konur myndu haga sér ef þær væru við völd. En ég myndi segja að það er mjög mikilvægur vinkill að skoða hvert hlutverk kynjanna var í þessu samhengi.“