Búlandsvirkjun í fjarlægri framtíð

Hlaup í Skaftá.
Hlaup í Skaftá. Mbl.is / Ragnar Axelsson

„HS Orka hefur unnið að þessu máli í einhver ár, en Magma hefur ekki með nokkrum hætti haft áhrif á það,“  segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, um Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi. 

Hann segir verkið vera á algjöru frumstigi. „Ef það væri farið í þessa framkvæmd núna og hún unnin af fullum krafti tæki hún eflaust fjögur til sex ár. En svo er spurning hvenær þörf verður fyrir þessa orku og hvort yfir höfuð verði farið í þetta. Svo það er dálítið langt inn í framtíðinni sem þetta verkefni gæti komist á koppinn.“

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að Suðurorka, félag í eigu Íslenskrar orkuvirkjunar og HS Orku sem nýverið komst í eigu Magma Energy, áformi að reisa Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi. Félagið hefur samið við flesta vatnsréttarhafa á svæðinu og bíður átekta. Búlandsvirkjun er ný útfærsla af Skaftárvirkjun.

Ekki fleiri framkvæmdir í farvatninu

Aðspurður segir Ásgeir að ekki séu fleiri virkjanir í farvatninu, sem Magma eignist í gegnum HS Orku. „Þetta er eina verk HS Orku, fyrir utan jarðhitavirkjanir á Reykjanesskaga.“

Þá segir hann að eina verkefni sem Magma hafi áformað fyrir utan verkefni HS Orku, séu jarðhitarannsóknir í Hrunamannahreppi. Fram hefur komið að fyrirtækið vill hefja jarðhitarannsóknir í Hrunamannaafrétti, frá Flúðum og inn í Kerlingarfjöll, og hefur óskað formlega eftir samstarfi við hreppinn.

Ásgeir Margeirsson.
Ásgeir Margeirsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka